Það má eiga von á mikilli stemmingu þegar Víkingar taka á móti Djurgården í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu á Kópavogsvelli á morgun. Stuðningsmenn sænska liðsins eru ekki þekktir af góðu einu og er vonandi að þeir láti kappið ekki bera sig ofurliði líkt og þeir gerðu í grannaslag Djurgården og AIK á dögunum þar sem stuðningsmenn fyrrnefnda liðsins báru eld að Friends Arena í Stokkhólmi og ollu skemmdum. Málið var litið það alvarlegum augum að það rataði á borð ríkisstjórnar Svíþjóðar á sínum tíma sem fordæmdi hegðun stuðningsmanna Djurgården.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 - 0 Djurgården
Öll eldri stúka Kópavogsvallar verður undirlögð stuðningsmönnum sænska liðsins auk þess að um 50 þeirra munu sitja í F hólfi Kópavogsvallar í norðurhluta nýju stúkunar. Tómas Þór Þórðarson fjölmiðlafulltrúi Víkinga fór yfir málin á blaðamannafundi fyrir leikinn í dag.
„Það er búið að selja allt boxið hinum megin til stuðningsmanna Djurgården sem að eru nú þekktir fyrir ýmislegt. Þeir voru meðal annars teknir fyrir á sænska þinginu í sumar þegar þeir köstuðu um 80 blysum inn á völlinn gegn AIK í Stokkhólmi svo það gæti verið svolítið fjör hér á morgun.“
Þrátt fyrir að mæta einum öflugustu aðdáendum Skandinavíu var þó engan bilbug að finna á fyrirliða Víkinga dananum Nikolaj Hansen sem sagði um málið.
„Ég held að það muni bara hjálpa okkur ef eitthvað. Við höfum sýnt það í útileikum. Auðvitað höfum við tekið eftir því þegar við göngnum til vallar en um leið og leikurinn er flautaður á þá gleymum við því.“
Leikur Víkinga og Djurgården fer fram á Kópavogsvelli og verður flautað til leiks klukkan 13:00. Fótbolti.net verður að sjálfsögðu á staðnum og verður leikurinn í beinni textalýsingu á vefnum auk þess sem viðtöl verða birt að leik loknum.
Athugasemdir