
Gilly Flaherty, leikjahæsti leikmaður í sögu úrvalsdeildar kvenna á Englandi, hefur lagt skóna á hilluna eftir frábæran feril.
Flaherty gekk í raðir Liverpool frá West Ham fyrir tímabilið sem er núna í gangi, en hún hafði verið fyrirliði hjá Lundúnafélaginu. Hún er að hætta á miðju tímabili af fjölskylduástæðum.
„Þetta er ekki auðveld ákvörðun en ég tók hana eftir samtöl við það fólk sem er næst mér," segir Flaherty.
„Ég missti föður minn fyrir jól og hjarta mitt er í molum. Í 22 ár var hann mér við hlið í fótboltanum og ég vil ekki halda áfram að spila án hans. Það er rétt fyrir mig að hætta núna og verja meiri tíma með fjölskyldu minni."
Hún spilaði alls 177 leiki í ensku úrvalsdeildinni og er sú leikjahæsta í sögu deildarinnar. Húnn vann deildina fjórum sinnum, FA-bikarinn sjö sinnum og Meistaradeildina einu sinni.
Athugasemdir