Kerfisbreyting hjá Man Utd? - Nunez var nálægt Sádi - Stórlið vilja Dean Huijsen - Ratcliffe að reka fleiri?
   mið 12. febrúar 2025 22:58
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes: Vorum talsvert hættulegri heldur en Liverpool
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Everton gerði 2-2 jafntefli við Liverpool í nágrannaslag í kvöld þar sem mikil barátta einkenndi leikinn. Liðin nýttu færin sín vel og skoruðu fjögur mörk þrátt fyrir lítið af góðum marktilraunum.

David Moyes þjálfari Everton var himinlifandi eftir lokaflautið þar sem Everton jafnaði leikinn með flautumarki á 98. mínútu, rúmum tveimur mínútum framyfir uppgefinn uppbótartíma.

Það var gríðarleg dramatík undir lokin þegar James Tarkowski jafnaði og var markið dæmt löglegt eftir langa athugun. Fyrst var athugað með rangstöðu og síðar með brot, en markið fékk að standa.

Arne Slot og leikmenn Liverpool voru æfir í kjölfarið og fékk Slot rautt spjald frá Michael Oliver fyrir sinn þátt í mótmælunum. Curtis Jones og Abdoulaye Doucouré kljáðust þá að leikslokum og uppskáru gult spjald hvor, en þeir voru báðir með gult spjald á bakinu og fengu því rautt. Þeir eru því í leikbanni í næstu umferð.

„Þetta var frábært jöfnunarmark hjá James (Tarkowski). Hann átti ekki sinn besta leik um helgina og bætti upp fyrir það með þessu marki. Þetta var frábært mark en svo var biðin eftir ákvörðun erfið. Það munaði litlu að markið hefði ekki fengið að standa en sem betur fer féll þetta með okkur," sagði Moyes.

„Við spiluðum góðan leik og vorum talsvert hættulegri heldur en Liverpool. Þegar þeir skoruðu í seinni hálfleik hugsaði ég með mér að þetta ætlaði að vera einn af þessum dögum, en sem betur fer náðum við stiginu. Við komum okkur í mikið af hættulegum stöðum sóknarlega en vantaði gæðin til að taka réttar ákvarðanir. Þegar allt kemur til alls er þetta gott stig, ég hefði sætt mig við stig úr þessum leik fyrir upphafsflautið.

„Við eigum enn langt í land með að spila eins og við viljum, það er margt sem við getum bætt við okkar leik. Núna höldum við okkur vonandi í úrvalsdeildinni og svo getum við hafið alvöru uppbyggingu á liðinu með nýjum eigendum í sumar."


Moyes taldi Michael Oliver dómara dæma viðureignina vel þar sem hann leyfði leiknum að fljóta. Hann segist þó ekki hafa séð átökin sem áttu sér stað eftir lokaflautið.

„Ég sá ekki hvað gerðist en ég er svekktur útaf því að við verðum án Doucouré í næsta leik eftir að hann fékk seinna gula spjaldið sitt. Þetta var mjög tilfinningaþrungið kvöld, stuðningsmenn voru ótrúlega háværir. Maður sá hvað þessi leikur skipti þá miklu máli."

Þetta var síðasti nágrannaslagur Everton og Liverpool á Goodison Park, þar sem Everton er að færa sig yfir á nýjan heimavöll við Bramley-Moore bryggjuna.

„Auðvitað vildum við sigra þennan leik en þegar við vorum undir á lokakaflanum óttaðist ég að við myndum ekki finna leið til að jafna, Liverpool varðist vel. Strákarnir gáfust aldrei upp og að lokum gerði Tarky (Tarkowski) gæfumuninn."

Moyes talaði um kvöldið í kvöld sem sögulegt kvöld fyrir Everton en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann stýrir liðinu í nágrannaslag gegn Liverpool.
Athugasemdir
banner
banner
banner