fös 12. apríl 2019 22:25
Ívan Guðjón Baldursson
Benitez: Newcastle getur unnið titla
Mynd: Getty Images
Rafael Benitez var himinlifandi eftir 0-1 sigur Newcastle gegn Leicester City í ensku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld.

Sigurinn fer langleiðina með að tryggja sæti Newcastle í úrvalsdeildinni og var Benitez spurður út í framtíð sína að leikslokum.

„Þetta eru risastór úrslit fyrir okkur, ég get ekki annað en hrósað mínum mönnum því við mættum virkilega góðu liði í dag. Við þurftum að gera nánast allt fullkomlega til að afreka þetta og það hafðist," sagði Benitez að leikslokum.

„Mitt markmið er að vinna titla hvert sem ég fer og þetta félag getur gert það. Þessi borg getur gert það. Ég vil ekki eyða 200 milljónum en ég vil hafa svigrúm til að gera rétta hluti. Munurinn á okkur og Leicester er augljós, meðalmaður í þeirra liði kostar 30 milljónir."

Spánverjinn hefur verið orðaður við brottför frá félaginu enda er hann ekki búinn að skrifa undir nýjan samning þó sá núverandi renni út í sumar.

Eigandi félagsins hefur ekki viljað eyða peningum í leikmannakaup og eru stuðningsmenn og starfsmenn félagsins afar ósáttir með það. Þeir eru aftur á móti hæstánægðir með störf Benitez sem hefur bjargað félaginu frá falli nokkrum sinnum án þess að hafa úr miklu að moða.

„Mér finnst sambandið sem leikmenn eiga við stuðningsmenn félagsins vera sérstakt. Það var drifkrafturinn okkar í dag í ljósi gæðamunarins. Þegar þú spilar við James Maddison og Jamie Vardy þá máttu ekki missa einbeitinguna í eina sekúndu því þeir munu refsa þér.

„Við þurfum að geta barist um leikmenn á markaðinum í sumar. Ef það gerist þá er framtíðin björt í Newcastle."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner