banner
   lau 13. febrúar 2021 17:14
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spánn: Atletico-vélin heldur áfram að malla
Llorente skoraði fyrir Atletico.
Llorente skoraði fyrir Atletico.
Mynd: Getty Images
Atletico Madrid heldur uppteknum hætti í spænsku úrvalsdeildinni. Liðið hefur farið á kostum á þessu tímabili með úrúgvæska sóknarmanninn Luis Suarez fremstan í flokki.

Suarez reimaði ekki á sig markaskóna gegn Granada í dag en tveir liðsfélagar hans gerðu það í staðinn. Marcos Llorente, sem fór á kostum gegn Liverpool í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð, braut ísinn á 63. mínútu en stuttu síðar jafnaði Granada metin. Argentínumaðurinn Angel Correa skoraði sigurmark Atletico þegar stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma.

Atletico er með átta stiga forskot á toppnum og með leik til góða á liðið í öðru sæti, nágranna sína í Real Madrid. Atletico hefur spilað með þriggja manna vörn á tímabilinu og það hefur skilað mjög góðri stigasöfnun. Liðið hefur aðeins tapað einum deildarleik af 21 til þessa.

Granada er í áttunda sæti og er eins og staðan er að berjast um Evrópusæti.

Í hinum leiknum sem búinn er í spænsku úrvalsdeildinni í dag vann Sevilla nauman sigur á Huesca, 1-0. Munir El Haddadi, fyrrum leikmaður Barcelona, skoraði eina mark leiksins á 57. mínútu. Sevilla hefur verið á flottu skriði og er í þriðja sæti með 45 stig. Huesca er á botni deildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Granada CF 1 - 2 Atletico Madrid
0-1 Marcos Llorente ('63 )
1-1 Yangel Herrera ('66 )
1-2 Angel Correa ('75 )

Sevilla 1 - 0 Huesca
1-0 Munir El Haddadi ('57 )

Leikir kvöldsins:
17:30 Eibar - Valladolid
20:00 Barcelona - Alaves (Stöð 2 Sport 4)
Athugasemdir
banner
banner
banner