Fram vann magnaðan endurkomusigur gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í Bestu deildinni í kvöld. Liðið skoraði fjögur mörk á skömmum kafla eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik.
Lestu um leikinn: Fram 4 - 2 Breiðablik
„Við vorum aggressífari í seinni hálfleik og komum boltanum miklu oftar í teiginn með fyrirgjöfum. Úr því varð eitthvað klafs og við áttum tvö skot úr teignum beint á Anton í markinu áður en við skorum þessi fjögur mörk á skömmum tíma," segir Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.
„Þegar við náum inn fyrsta markinu þá hræðast þeir. Gaui Þórðar sagði alltaf í gamla daga að þriðja markið í leikjum skipti öllu máli. Þegar við skoruðum 2-1 þá fengum við byr undir báða vængi, héldum áfram og höfðum trú. Þegar við jöfnuðum héldum við bara áfram og ætluðum að vinna leikinn."
Fyrir leikinn voru menn að tala um hvaðan mörkin ættu að koma hjá Fram og viðurkennir Rúnar í viðtalinu að það hafi verið rætt innan félagsins um að bæta við sóknarmanni.
Athugasemdir