Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 13. júní 2022 20:42
Brynjar Ingi Erluson
Vísbendingar um bjartari tíma þrátt fyrir svekkjandi úrslit
Þórir Jóhann fagnar öðru marki íslenska liðsins
Þórir Jóhann fagnar öðru marki íslenska liðsins
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Hörður Björgvin skaut í þverslá
Hörður Björgvin skaut í þverslá
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísland 2 - 2 Ísrael
1-0 Jón Dagur Þorsteinsson ('9 )
1-1 Daníel Leó Grétarsson ('35 , sjálfsmark)
2-1 Þórir Jóhann Helgason ('60 )
2-2 Dor Peretz ('65 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið gerði 2-2 jafntefli við Ísrael í B-deild Þjóðadeildarinnar á Laugardalsvelli í kvöld en það er ekki annað hægt að segja en að úrslitin séu svekkjandi.

Arnar Þór Viðarsson og teymi hans hafa fengið mikla gagnrýni fyrir frammistöðuna í síðustu leikjum og hefur pressan sérstaklega verið nefnd.

Þegar flautað var til leiks í kvöld var mikil ákefð í liðinu og allt annað að sjá liðið. Pressan var frábær og skilaði það sér með marki á 9. mínútu.

Hörður Björgvin Magnússon tók langt innkast sem Daníel Leó Grétarsson flikkaði áfram á Jón Dag Þorsteinsson. Hann stökk hátt upp og stangaði boltann yfir markvörð gestanna.

Arnór Sigurðsson fékk frábært tækifæri til að bæta við öðru marki og það eftir góða pressu. Hákon Arnar Haraldsson pressaði á vörn Ísrael við miðsvæðið, vann boltann og lagði hann svo til hliðar á Arnór sem var kominn einn á móti markverði en lét verja frá sér.

Ísrael komst aðeins betur inn í leikinn og náði inn jöfnunarmarki á 35. mínútu. Ramzi Safuri fékk boltann í teignum og reyndi skot sem fór af Daníel Leó og í netið. Hörður Björgvin var sentimetrum frá því að taka forystuna fyrir Ísland en aukaspyrna hans hafnaði í þverslá undir lok fyrri hálfleiks.

Staðan var jöfn í hálfleik 1-1. Íslenska liðið náði aftur forystunni á 60. mínútu. Hörður Björgvin átti langa sendingu á hægri vænginn á Arnór sem kom boltanum fyrir markið. Markvörður Ísraels varði boltann út á Þóri Jóhann Helgason sem lagði boltann snyrtilega í hægra hornið.

Fimm mínútum síðar jöfnuðu gestirnir og var það mark afar vafasamt. Eftir fyrirgjöf frá hægri skallaði Dor Peretz á markið en Rúnar Alex Rúnarsson náði að setja hnéð í boltann. Það var erfitt að sjá hvort boltinn hafi farið yfir línuna en eftir VAR-skoðun var markið dæmt gott og gilt.

Íslenska liðið gerði sig líklegt til að ná í sigumarkið undir lokin en það vantaði herslumuninn. Lokatölur á Laugardalsvelli, 2-2, og situr Ísland áfram í 2. sæti riðilsins með 3 stig en Ísrael með 5 stig í efsta sæti.

Ísland þarf að treysta á að Albanía hirði stig af Ísrael í september og þá þarf Ísland að vinna Albaníu til að vinna riðilinn og koma sér í umspil Evrópumótsins.
Athugasemdir
banner