þri 13. júlí 2021 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Þurfum að halda markinu hreinu eins lengi og hægt er"
Birkir Heimisson
Birkir Heimisson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Guðjóns
Heimir Guðjóns
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valsararnir Birkir Heimisson og Heimir Guðjónsson ræddu við Ragnar Vignir í viðtölum sem birt voru á Facebook-síðunni Valur Fótbolti í dag.

Tilefnið er leikur Vals og Dinamo Zagreb sem fram fer á Origo vellinum í kvöld. Leikurinn er seinni leikur liðanna í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Dinamo leiðir einvígið með einu marki eftir fyrri leikinn.

„Við bara mættum ekki nógu vel til leiks. Það var mjög heitt og við vorum lengi að aðlagast. Við gefum þeim tvö mörk úr stöðum sem við höfum alls ekki verið að gera og það vitum við best sjálfir. Heimir [Guðjónsson þjálfari] sagði í hálfleik að við gætum haldið boltanum miklu betur en við gerðum. Það kólnaði líka aðeins í veðrinu í seinni hálfleik og við fórum að spila betur. Hannes [Þór Halldórsson markmaður] ver þetta víti sem í raun bara bjargar einvíginu og það gaf okkur helling," sagði Birkir um fyrri leikinn.

Birkir var beðinn um að meta Dinamo liðið: „Það eru alveg þrír eða fjórir leikmenn þarna sem geta spilað fótbolta," sagði Birkir og brosti.

„Þetta eru bara fótboltamenn og í leiknum getur allt gerst. Við þurfum að halda markinu hreinu eins allra allra lengi og hægt er. Mark frá okkur snemma myndi svo hjálpa til.”

Birkir er með einföld skilaboð til Valsara.„Ég bara hlakka til að sjá Valsara mæta í stúkuna."

Þjálfarinn Heimir Guðjónsson var einnig spurður út í fyrri leikinn áður en talið barst að leiknum í kvöld.

„Þetta var fínt á varamannabekknum því við vorum í skugga. Sjálfur er ég góður í kringum tuttugu gráðum en allt yfir það verður vesen og því hefur þetta eflaust verið erfitt fyrir leikmenn í fyrri hálfleik," sagði Heimir.

„Eftir á sáum við að leikmenn voru að bera of mikla virðingu fyrir Dinamo í fyrri hálfleik. Í Evrópuleikjum verðum við líka að átta okkur á því að það er ekki jafn mikill tími á boltanum eins og í venjulegum leikjum og alls ekki í boði að gera mistök líkt og við gerðum."

„Mörkin sem við fáum á okkur er ólík því sem við höfum eigum að venjast. Það hefur líka verið farið rækilega yfir þetta á fundum."

„Í seinni hálfleik þá þorðum við meira að halda boltanum eins og við getum og urðum sjálfum okkur líkir. Við sýndum karakter og það er einkenni góðra fótboltaliða að gera það. Markvarsla Hannesar í vítinu gaf öllum kraft og í lok leiksins sýndum við virkilega úr hverju við erum gerðir með gæðum.”

Hvað finnst Heimi um lið Dinamo? „Þetta er auðvitað mjög gott fótboltalið og kemst ekki þangað sem það hefur farið án þess að spila góðan fótbolta. Hinsvegar er þetta einn leikur í kvöld og það getur allt gerst í þessu.”

Heimir var að lokum með skilaboð til áhorfenda í kvöld: „Ég held að leikmenn hafi sýnt með frammistöðunni ytra að þeir eiga stuðningin skilið. Nú er búið að lyfta takmörkunum og vonandi verður góður stuðningur úr stúkunni því það skiptir okkur sannarlega máli," sagði Heimir við Ragnar Vignir.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20:00 og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner