Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   lau 13. júlí 2024 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
Kepa fer frá Chelsea í sumar
Mynd: Getty Images
Spænski markvörðurinn Kepa Arrizabalaga hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Chelsea. Hann hefur ekki áhuga á að spila meira fyrir félagið, sem telur sig vera vel statt þegar kemur að markmannsmálum.

Hann á aðeins eitt ár eftir af samningi og er á sölulista eftir að hafa verið á láni hjá Real Madrid á síðustu leiktíð.

Kepa er 29 ára gamall og hefur spilað 163 leiki á fimm árum sem leikmaður Chelsea. Hann lék 20 leiki á láni hjá Real Madrid og stóð sig með sóma.

Óljóst er hvert Kepa mun halda næst, þar sem Real Madrid og Al-Ittihad eru taldir vera líklegustu áfangastaðirnir.

Hjá Real gæti hann tekið við sem varamarkvörður af úkraínska landliðsmarkverðinum Andriy Lunin sem vill leita á önnur mið fyrir aukinn spiltíma.

Hjá Al-Ittihad væri Kepa aðalmarkvörður í stjörnum prýddu liði. Hann myndi taka við markmannsstöðunni af Marcelo Grohe og vera með leikmönnum á borð við Fabinho, N'Golo Kanté og Karim Benzema í liði.

Chelsea keypti Kepa á sínum tíma frá Athletic Bilbao fyrir metfé, eða 80 milljónir evra. Það er metfé fyrir markvörð enn í dag, en til samanburðar er André Onana markvörður Manchester United sá fjórði dýrasti í sögunni eftir að hann var keyptur fyrir rúmlega 50 milljónir evra.
Athugasemdir
banner