Mikið ber á milli Man Utd og Roma í viðræðum um Zirkzee - Chelsea hyggst styrkja miðsvæðið og er orðað við Mainoo og Wharton
banner
   fim 18. desember 2025 10:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvað fékk Arteta frá Hurðaskelli?
Mikel Arteta, stjóri Arsenal.
Mikel Arteta, stjóri Arsenal.
Mynd: EPA
Það er kominn tími á að Arsenal vinni titla.
Það er kominn tími á að Arsenal vinni titla.
Mynd: EPA
Arteta með lærisveinum sínum.
Arteta með lærisveinum sínum.
Mynd: EPA
Leikmenn, stjórar og jafnvel félög í ensku úrvalsdeildinni hafa sett skóinn út í glugga í von um að fá glaðning frá jólasveinunum. Fótbolti.net ætlar að fjalla um það fram að jólum hvað jólasveinarnir eru að bjóða upp á þetta árið.

Núna skoðum við hvað Mikel Arteta, stjóri Arsenal, fékk frá Hurðaskelli.

Arsenal er enn eitt árið í toppbaráttunni, spilar skipulagðan og agaðan fótbolta og hefur þróast úr „áhugaverðu verkefni“ í alvarlegan titilkandídat. En með þeim væntingum fylgir líka pressa og spurningin sem hangir alltaf yfir Arteta:

Er þetta árið þar sem allt smellur?

Arteta hefur byggt Arsenal upp á síðustu árum. Á þeim tíma hefur hann verið gagnrýndur, það hefur verið efast um hann og jafnvel gert grín að honum en hann hefur alltaf haldið sínu striki.

Þegar Hurðaskellir kíkti í skóinn hans Arteta í nótt ákvað hann að minna hann á eitt.

Ljósaperan
Margir muna eftir því þegar Arteta tók ljósaperu upp í Amazon Prime þáttunum um Arsenal og notaði hana til að hvetja lið sitt áfram. Hann kveikti á ljósaperunni og sagðist vilja fá orku frá liðinu sínu.

Þessi gjöf er áminning um að hafa kveikt á perunni.

Arsenal er orðið lið sem stjórnar leikjum og núna er kominn tími á að vinna eitthvað. Leikmennirnir skilja hlutverk sín, bæði með og án boltans en núna verða þeir að halda orkunni.

Kannski er þetta árið þar sem hugmynd Arteta er ekki lengur bara hugmynd, heldur fullmótuð framkvæmd.

Ljósaperan í skónum Arteta bera með sér einföld skilaboð:

„Þetta er augnablikið. Nú má ekki slökkna.“


Athugasemdir
banner