Logi Tómasson var í byrjunarliði Stromsgodset sem tapaði gegn Lilleström í norsku deildinni í dag.
Lilleström vann leikinn 3-1 en liðið var 2-1 yfir í hálfleik. Logi skoraði mark Stromsgodset en það var af dýrari gerðinni. Hann tók skot utanfótar, viðstöðulaust fyrir utan teiginn og boltinn söng í netinu.
Patrik Sigurður Gunnarsson er að öllum líkindum á leið til belgíska liðsins Kortrijk en hann var í byrjunarliði norska liðsins Viking þegar liðið vann 2-0 sigur á Kristiansund í dag. Hann gerði sér lítið fyrir og lagði upp fyrra markið.
Hilmir Rafn Mikaelsson spilaði rúmlega klukkutíma fyrir Kristiansund.
Brynjar Ingi Bjarnason spilaði allan leikinn en Viðar Ari Jónsson spilaði fyrri hálfleeikinn þegar HamKam vann 2-1 sigur á Odd. Þá var Júlíus Magnússon á sínum stað í byrjunarliðinu og með fyrirliðabandið þegar Fredrikstad gerði markalaust jafntefli gegn Molde.
Viking er í 3. sæti deildarinnar með 28 stig eftir 14 leiki. Fredrikstad í 5. sæti með 23 stig og Stromsgodset í sætinu fyrir neðan með 19 stig. Þá er HamKam í 8. sæti með 17 stig eftir 15 leiki og Kristiansund með jafnmörg stig í 9. sæti.