Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   lau 13. júlí 2024 18:15
Ívan Guðjón Baldursson
Odsonne Édouard eftirsóttur - Ekki í áformum Oliver Glasner
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Framherjinn Odsonne Édouard er eftirsóttur af ýmsum félögum eftir að Crystal Palace setti hann á sölulista í vor, eftir komu Oliver Glasner í þjálfarasæti félagsins.

Édouard var með fast sæti í byrjunarliði Palace áður en Glasner tók við og kaus sá austurríski að nota frekar Jean-Philippe Mateta, sem gjörsamlega raðaði inn mörkunum undir hans stjórn.

Mateta skoraði níu mörk í síðustu sex leikjum enska úrvalsdeildartímabilsins og verður afar áhugavert að fylgjast með honum á næstu leiktíð.

Édouard er 26 ára gamall Frakki sem hefur átt erfitt með markaskorun í treyju Crystal Palace eftir að hafa verið mikil markavél stærsta hluta ferilsins. Hann hefur skorað 21 mark í 101 leik fyrir Palace, en þar áður var hann markahæsti leikmaður Celtic.

Édouard á 51 leik fyrir yngri landslið Frakka og tókst honum að skora 43 mörk í þeim, en honum hefur þó ekki tekist að halda markaskoruninni áfram í enska boltanum.

Édouard á eitt ár eftir af samningi sínum við Crystal Palace, á meðan Mateta er með tvö ár eftir.

Fabrizio Romano greinir frá því að Édouard ætti ekki að lenda í vandræðum með að finna sér nýtt félag þar sem hann er með tilboð á borðinu frá félögum í ensku úrvalsdeildinni og efstu deild ítalska boltans - auk þess að hafa verið orðaður við FC Bayern fyrr í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner