KA og Breiðablik skildu jöfn á Greifavellinum á Akureyri í dag. Breiðablik var manni færri allan síðari hálfleikinn. Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var ánægður með sóknarleik liðsins.
Lestu um leikinn: KA 1 - 1 Breiðablik
„Það sem ég er ósáttur með er að við vorum lítið með boltann í seinni hálfleik. Ég er ekki sáttur með hvernig við pressuðum, mér fannst við ekki nógu hugrakkir í pressunni. Hrós á Breiðablik, þeir gerðu vel einum færri, sóknarlega er ég ánægður, við eigum að skora meira," sagði Haddi.
„En varnarlega, við fáum á okkur mörg færi og það er eitthvað sem við viljum ekki vera þekktir fyrir og hvað þá einum fleiri."
Næsti leikur liðsins verður gríðarlega erfiður gegn Club Brugge á Laugardalsvelli. Liðið spilar þar aftur síðar í sumar í úrslitum Mjólkurbiakrsins. Haddi telur það forskot fyrir liðið að spila á Laugardalsvelli í vikunni.
„Vonandi gefur þetta þeim mikið. Þetta var góð upplifun, við spiluðum vel í 85 mínútur, það er fimm mínútna kafli sem drepur okkur úti. Ég hefði viljað fara í hálfleikinn með 2-0 en það fer niður í 4-0 og þá er einvígið orðið erfitt," sagði Haddi um fyrri leik liðanna sem KA tapaði 5-1.
„Þetta er frábært fyrir okkur. Við fáum að ég tel smá forskot að fá alvöru leik á Laugardalsvelli áður en við förum í bikarúrslitaleikinn. Við ætlum að nálgast þann leik á þann hátt, spila vel og standa okkur vel og ganga stoltir frá borði og það mun gefa okkur að við erum búnir að spila svona stórleik á Laugardalsvelli fyrir bikarúrslitin."























