Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   sun 13. október 2019 15:42
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kári skrifaði ritgerð um spillingu í enskum fótbolta
Icelandair
Kári og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Kári og Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári á 80 landsleiki að baki fyrir Ísland.
Kári á 80 landsleiki að baki fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Kári Árnason, sem er á mála hjá bikarmeisturum Víkings, skrifaði háskólaritgerð um spillingu í enskum fótbolta.

Franski fjölmiðillinn France Info vakti athygli á þessu fyrir landsleik Íslands og Frakklands, sem fram fór síðastliðinn föstudag.

Leikurinn endaði með naumum 1-0 sigri Frakklands, en Kári háði baráttu við Olivier Giroud í leiknum.

France Info heyrði fyrst í Kára á síðasta ári er hann var að spila í Tyrklandi til að ræða við hann um ritgerðina sem hann skrifaði í Háskólanum á Bifröst.

Kári lék með Plymouth á Englandi frá 2009 til 2011 og er hann lék þar ákvað hann að skrá sig í viðskiptafræði á Bifröst.

Kári heyrði sögur um mútur og fleira athugavert í enska boltanum; í ensku úrvalsdeildinni og Championship-deildinni. Honum langaði að kanna það sem hefði verið sagt. Rannsókn hans stóð yfir í fimm mánuði og tók hann viðtöl við leikmenn, knattspyrnustjóra, annað fótboltastarfsfólk og umboðsmenn. Enginn viðmælendanna kom fram undir nafni.

„Til þess að hafa það á hreinu, þá flæktist fólkið sem ég tók viðtöl við ekkert inn í þetta. En sumt þeirra gat varpað ljósi á hvernig þetta var að gerast og gat staðfest hluti," sagði Kári.

Kári ræddi lítið við liðsfélaga sína um það sem hann var að gera og það var á kvöldin, eftir æfingar, þegar Kári settist við lyklaborðið og fór að skrifa.

Ritgerðin var að lokum 50 blaðsíður og fékk hann 8,5 í einkunn. „Já, já, ekki svo slæmt," sagði landsliðsmiðvörðurinn.

France Info reyndi að fá leyfi frá Háskólanum á Bifröst til að lesa ritgerðina, en fékk það ekki. Ritgerðin er í tölvu Kára og hafa ekki margir fengið tækifæri til að lesa hana. Mikið leyndarmál.

Undir lok greinarinnar segir að Kári sé núna í Masters-námi í Skotlandi.

Útdráttur ritgerðarinnar
Á Skemmunni er aðgangur að ritgerðinni lokaður en þar má lesa útdrátt að henni.

Hann er svona:

„Varla er hægt að lesa dagblöðin á Englandi án þess að minnst sé á einhverskonar hneykslismál tengdum knattspyrnu. Svo virðist vera sem þessi hneykslismál eigi sögu sem er jafn gömul knattspyrnunni sjálfri. Þau hneykslismál sem vakið hafa áhuga minn eru hins vegar þau sem tengjast fjármunabrotum á einn eða annan hátt. Fjármagn innan knattspyrnunar hefur aukist gríðarlega síðastliðin tuttugu ár og virðist sem að spillingunni hafi einnig vaxið fiskur um hrygg. Reikurinn er mikill en eldurinn hefur ekki enn verið fundinn, kannski hagnast enginn af því að eldurinn sé fundinn. Svo virðist sem margar ákærur og ásakanir hafa litið dagsins ljós, en sakfellingar eru örfáar."

„Viðfangsefni rannsóknarinnar er skuggahlið knattspyrnunar og vafasamar aðferðir einstaklinga innan hennar til þess að tryggja eigin hagnað. Einkum er horft til Englands. Við rannsóknina var notast við ýmsar skýrslur og blaðagreinar, en þyngst vógu þó viðtöl sem tekin voru við ýmsa einstaklinga innan knattspyrnuheimsins. Þessir einstaklingar, sérfræðingar innan iðnaðarins, gátu veitt innsýn inn í hvað gerist á bakvið tjöldin á leikmannamarkaðinum og innsýsn inn í rekstur knattspyrnuliða sem fyrirtækja."

„Það er niðurstaða ritgerðarinnar að spilling innan knattspyrnunar blómstrar, þó svo að sumir vilji ekki viðurkenna það. Eins er ljóst að stórt grátt svæði hefur myndast, sem umboðsmenn og margir framkvæmdarstjórar vinna í þegar kemur að leikmannamarkaðinum. Félagslið eru buguð af launakostnaði leikmanna og sum hver borga hátt í 90% af heildartekjum sínum í laun. Eftir að Bosman dómurinn féll hefur vald umboðsmanna aukist mikið. Það nýta umboðsmenn sér til fullnustu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner