Þjálfarastarfið hjá Svíanum Jonas Eidevall er í hættu eftir annan tapleikinn í röð hjá kvennaliði Arsenal.
Eidevall hefur þjálfað kvennalið Arsenal síðastliðin þrjú ár og tekist að vinna tvo titla við stjórnvölinn þar, enska deildabikarinn 2023 og 2024.
Arsenal tapaði heimaleik í ensku deildinni gegn Chelsea í gær, eftir stórt tap gegn FC Bayern í Meistaradeildinni í miðri viku og markalaust jafntefli gegn Everton um síðustu helgi.
„Ég og leikmennirnir erum að gefa allt sem við eigum í þetta, það er allt sem við getum gert. Ég ræð ekki hvort ég haldi áfram í starfinu eða ekki, eina sem ég get gert er að einbeita mér að því sem ég hef stjórn á. Ég er einbeittur að næstu æfingum og næsta leik," sagði Eidevall eftir tapið og var spurður út í viðbrögð stuðningsfólks sem baulaði á leikmenn eftir að Chelsea komst í tveggja marka forystu.
„Stuðningsfólk ætti að horfa á hversu mikla vinnu þessir leikmenn eru að leggja á sig og hversu mikinn baráttuanda þær eru með. Þær gefa allt fyrir félagið og ég vona að það gefi stuðningsfólki trú á að við getum snúið slæmum úrslitum við. Ég skil að fólk sé vonsvikið með að við séum ekki að vinna fótboltaleiki og við erum það líka. Það er mikið af tilfinningum í fótbolta og ég skil að fólk sýnir tilfinningar bæði þegar gengur vel og illa. Það er þeirra réttur."
Markmiðið hjá Arsenal er að berjast um Englandsmeistaratitilinn en Chelsea hefur unnið deildina síðustu fimm ár í röð.
Athugasemdir