Frank vill endurnýja kynni sín við Schade - Guehi eftirsóttur - Upamecano til Liverpool?
   lau 11. október 2025 13:17
Brynjar Ingi Erluson
Gætu selt Man Utd á næsta eina og hálfa árinu
Stuðningsmenn Man Utd hafa lengi kallað eftir sölu
Stuðningsmenn Man Utd hafa lengi kallað eftir sölu
Mynd: EPA
Sir Jim Ratcliffe á 28,94 prósent hlut í Man Utd
Sir Jim Ratcliffe á 28,94 prósent hlut í Man Utd
Mynd: EPA
Stuðningsmenn Manchester United gætu loks verið að fá sínu framgengt en samkvæmt Athletic er möguleiki á því að félagið verði selt á næsta eina og hálfa árinu.

Glazer-fjölskyldan keypti United fyrir 790 milljónir punda árið 2005, en stuðningsmenn hafa lengi vel haft áhyggjur af eignarhaldinu og skuldum félagsins.

Skuldir félagsins nema um einum milljarði punda og bættust 105 milljónir punda ofan á það í sumar til að fjármagna nýja leikmenn.

Miklar breytingar hafa verið gerðar á eignarhaldinu síðustu ár. Sir Jim Ratcliffe keypti 27,7 prósent hlut í félaginu árið 2023 og fjárfesti síðan 100 milljónum punda til viðbótar á síðasta ári sem jók hlut hans upp í 28,94 prósent.

Ratcliffe sér alfarið um fótboltamál félagsins og spilaði stóra rullu í að ráða Omar Berrada sem framkvæmdastjóra. Einnig hefur Ratcliffe lagt mikinn pening í að endurnýja æfingasvæðið og aðstöðu félagsins.

Hann hefur lagt mikla vinnu í að rétta úr kútnum hjá United, en nú koma fréttir frá Mið-Austurlöndunum sem segja að félagið sé í söluferli.

Turki Alalshikh, stjórnarformaður GEA (General Entertainment Authority) í Sádi-Arabíu, segir að söluferli á United sé komið langt á veg, en að kaupendurnir komi ekki frá Sádi-Arabíu heldur frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Aðrir miðlar segja hins vegar að viðræður séu aðeins á frumstigi og ekkert sem bendir til þess að tilboð sé væntanlegt, en það er í hag Glazer-fjölskyldunnar og Ratcliffe að félagið verði selt fyrir febrúar 2027.

Sérstök klásúla tók gildi í ágúst sem neyðir Ratcliffe til að selja hlut sinn í félaginu á sömu skilyrðum og Glazer-fjölskyldan. Klásúlan kemur einnig í veg fyrir að minnihlutaeigendur geti komið í veg fyrir sölu, ef að kaupandi er reiðubúinn að kaupa 100 prósent hlut í félaginu.

Athletic segir að ef fjölskyldan ákveður að selja félagið fyrir febrúar 2027 þá verði hlutabréfaverð að vera hærra en það sem Ratcliffe greiddi árið 2023 sem var 33 Bandaríkjadollarar á hlut.

Sú trygging rennur út eftir febrúar mánuð og geta þá mögulegir fjárfestar boðið lægri upphæð í félagið sem kæmi sér illa fyrir Glazer-fjölskylduna og Ratcliffe.

Hlutabréf Man Utd standa nú í 16 dollurum, meira en helmingi minna en það sem Ratcliffe greiddi fyrir tveimur árum.
Athugasemdir
banner
banner