
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern München og íslenska landsliðsins, sneri aftur í byrjunarliði Bayern í 3-1 sigri á Wolfsburg í toppslag í þýsku deildinni í dag.
Miðvörðurinn hefur gengið í gegnum erfið hnémeiðsli síðustu mánuði en svo virðist sem hún sé að komast aftur í sitt besta form.
Hún missti af fyrstu leikjum tímabilsins en álaginu hefur verið stýrt í endurkomu hennar.
Í síðustu tveimur leikjum hefur hún kom inn af bekknum en hún sneri aftur í byrjunarliðið gegn Wolfsburg í dag og lék klukkutíma áður en henni var skipt af velli.
Bayern hafði 3-1 sigur gegn erkifjendum sínum í Wolfsburg og sitja nú á toppnum með 16 stig, þremur stigum meira en Wolfsburg.
Fanney Inga Birkisdóttir sat allan tímann á varamannabekknum er topplið Häcken vann 2-0 sigur á Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni. Häcken er með fjögurra stiga forystu þegar fjórar umferðir eru eftir.
Alexandra Jóhannsdóttir byrjaði hjá Kristianstad í 0-1 tapi gegn Norrköping. Elísa Lana Sigurjónsdóttir kom inn af bekknum hjá Kristianstad undir lok leiks en Sigdís Eva Bárðardóttir var ónotaður varamaður hjá Norrköping. Kristianstad er í 6. sæti með 37 stig en Norrköping í 5. sæti með 40 stig.
María Catharina Ólafsdóttir Gros lagði upp eina mark Linköping í 2-1 tapi gegn Malmö. Malmö náði tveggja marka forystu áður en María lagði upp mark fyrir Moira Kelly snemma í þeim síðari.
María hefur skorað sex mörk og gefið tvær stoðsendingar með Linköping á tímabilinu, en liðið er í næst neðsta sæti með 15 stig, fimm stigum frá öruggu sæti.
Athugasemdir