Fyrrum United-maðurinn Roy Keane væri til að sjá Diego Simeone taka við Manchester United ef Ruben Amorim verður rekinn frá félaginu. Þetta sagði hann í Overlap á Sky.
Man Utd er á erfiðum stað en þó er ekki gert ráð fyrir að félagið muni skipta um stjóra á næstunni. Amorim tókst að bjarga því með því að vinna Sunderland 2-0 rétt fyrir landsleikjatörnina.
Sir Jim Ratcliffe, meðeigandi í United, sagði í viðtali á dögunum að hann væri til í að gefa Amorim að minnsta kosti þrjú ár til að sanna sig, en allir vita þó að það getur breyst á augabragði.
Keane og Gary Neville ræddu um stjórastöðu United í Overlap en þar sagðist Keane vera með ágætis hugmynd hver ætti að taka við.
„Ég hef sagt þetta í mörg ár en ég væri til í Diego Simeone frá Atlético Madríd. Ég væri til að sjá hann taka þessu starfi,“ sagði Keane.
„Ég veit að félagi hans fór til Arsenal (Andrea Berta, yfirmaður íþróttamála), en ég er bara viss um að hann myndi skapa jákvæðan usla. Hann myndi hrista upp í staðnum og segja: „Svona gerir maður hlutina“. Þetta er auðvitað engin trygging, en ég væri bara til í að sjá persónuleikann hans og svo talar ferill hans líka sínu máli.“
„Fólk gæti hugsað út í leikstílinn en þetta lið skoraði fimm mörk gegn Real Madrid um síðustu helgi. Hann er ekki hrifinn af því að leyfa liðum að skora of mörg mörk eða fá mörg færi gegn sér, en þeir geta spilað og barist.“
„Þeir eru með jafn gott lið og þeir voru með fyrir nokkrum árum, en það sást gegn Liverpool að baráttuandinn er enn til staðar. Hann á hliðarlínunni, var síðan rekinn af velli. Ég væri bara til í stóran persónuleika,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir