Man Utd í baráttuna um Wharton - Vilja ekki Tuchel í stað Amorim - Haaland til Real Madrid?
   sun 12. október 2025 17:30
Kári Snorrason
Eldræða Arnars - „Umræðan var á köflum vandræðaleg“
Eimskip
Arnar var heitur á blaðamannafundi fyrr í dag.
Arnar var heitur á blaðamannafundi fyrr í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Ísland tapaði 5-3 gegn Úkraínu á föstudaginn.
Ísland tapaði 5-3 gegn Úkraínu á föstudaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Arnar segir frammistöðu íslenska liðsins vera þá bestu með boltann frá upphafi landsliðsins.
Arnar segir frammistöðu íslenska liðsins vera þá bestu með boltann frá upphafi landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson

„Ég er bara stoltur að vera þjálfari þessa liðs. Slökum aðeins á bölmóðnum frá því á föstudaginn. Þetta var vandræðalegt með umræðuna á köflum, þó að ég skilji hana mjög vel. Þið eruð líka sölumenn og þurfið að selja ykkar blöð.“

Sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson aðspurður um Úkraínuleikinn á blaðamannafundi landsliðsins fyrr í dag fyrir leik Íslands og Frakklands annað kvöld.

Arnar var spurður hver væri mesti lærdómurinn frá tapinu gegn Úkraínu síðastliðinn föstudag og sparaði hann ekki stóru orðin. Hann segir helstu áskorunina vera að halda trú í hópnum og bætti við að þetta væri besti leikur sem Ísland hefur spilað með bolta frá stofnun íslenska landsliðsins.


„Fyrir mig er stærsti lærdómurinn að gera upp leikinn þannig að strákarnir haldi áfram að trúa að þeir séu frábærir. Því leikurinn var frábær á föstudaginn, frábær. Ég veit að þetta er besti leikur sem Ísland hefur spilað með bolta frá stofnun íslenska landsliðsins, með boltann þar að segja. Það þarf enginn að trúa mér, það þarf bara að kíkja í tölfræðina, þetta eru allt opinberar bækur. Þá er ég að tala um hátt skrifað lið á FIFA listanum. Það þarf að fara aftur fyrir lið í 100. sæti til að finna sambærilega frammistöðu með boltann. En þá erum við farin að tala um San Marínó og Liechtenstein.“ 

Síðustu þrjú mörk Úkraínu komu öll fyrir utan teig Íslands.

„Pressan var mjög góð, opinn varnarleikur var mjög góður nema í marki númer tvö sem var óheppilegt. Svo komu hin mörkin, við vitum alveg hvernig hin mörkin voru. Svo er leikurinn búinn og menn skrifa að þetta hafi verið ömurlegt októberkvöld, og allt það fram eftir götunum. Það er gott og blessað, þið þurfið að selja ykkar blöð og ég skil það mjög vel.“ 

„Þurfti aðeins að 'rasha út“ 

„Ég fer í sölumannsbúninginn og sýni strákunum okkar tölfræði, hvernig leikurinn var í raun og veru. Vonandi trúa þeir mér og ég veit að 95% af þjóðinni hefur mikið vit á sinni íþrótt og trúa mér líka. Það er bara gaman að hinum fimm prósentunum. Gaman að hlusta á bullið í sumum og allt þar fram eftir götunum.“ 

Arnar bendir þá á að liðið sé enn ungt og segir aldurinn á gullaldarliði Íslands hafa verið mun hærri.

„Leikurinn var mjög skemmtilegur, var hann fullkominn? Nei, af því við töpuðum honum. Við töpuðum honum illa og þurfum að læra af því. En elítuíþróttamenn vilja læra af mistökum til að verða betri. Það eru nokkrir strákar hjá okkur sem eru mjög ungir. Á toppaldri og geta verið betri. Við þurfum að vera minnugir þess að þegar gullaldarliðið okkar fór á EM og HM þá voru Gylfi og þessir strákar 26, 27 ára. Strákurinn mér við hlið (Hákon Arnar Haraldsson) er 22 ára eins og Ísak, Orri og þessir strákar,“  sagði Arnar.

Franski túlkurinn átti í erfiðleikum með að þýða þessa eldræðu Arnars, en landsliðsþjálfarinn sagði að túlkurinn þyrfti ekki að þýða ræðuna fyrir frönsku fjölmiðlana, hann þurfti bara aðeins að 'rasha' út og uppskar hlátur frá blaðamönnum. Ræðu Arnars má sjá hér fyrir neðan og hefst hún þegar tíu mínútur voru liðnar af fundinum. 


Athugasemdir
banner
banner