Barcelona vill fá Kane - Wharton efstur á lista Chelsea - Endrick lánaður til Lyon
   fim 13. nóvember 2025 18:55
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Undankeppni HM: Úrslitaleikur í Varsjá framundan
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Aserb­aísjan 0 - 2 Ísland
0-1 Albert Guðmundsson ('20 )
0-2 Sverrir Ingi Ingason ('39 )
Lestu um leikinn

Ísland mætir Úkraínu í Varsjá í Póllandi um helgina í leik um sæti umspili fyrir HM 2026. Það varð ljóst eftir sigur Íslands gegn Aserbaísjan ytra í kvöld.

Fyrstu mínúturnar voru nokkuð rólegar en Albert Guðmundsson kom Íslandi yfir eftir tuttugu mínútna leik. Ísak Bergmann Jóhannesson fann Albert inn á teignum og hann fékk nægan tíma og pláss og skoraði örugglega.

Stuttu síðar átti Albert fyrirgjöf og boltinn fór af varnarmanni og var nálægt því að rata í netið.

Undir lok fyrri hálfleiks bætti Sverrir Ingi Ingason við öðru marki Íslands. Jóhann Berg Guðmundsson átti fyrirgjöf, í sínum 100. landsleik, beint á kollinn á Sverri sem skallaði boltann í netið.

Elías Rafn Ólafsson lenti í vandræðum undir lok leiksins en hann sendi boltann beint á Anatolii Nuriiev en sem betur fer hitti hann ekki á markið.

Stuttu síðar spiluðu Hákon Arnar Haraldsson og Albert vel sín á milli. Albert komst inn á teiginn og sendi boltann út á Jón Dag Þorsteinsson sem var kominn í gott færi en Aydin Bayramov, í marki Aserbaísjan lokaði á hann.

Sigur Íslands staðreynd. Það kemur betur í ljós eftir leik Frakklands og Úkraínu í kvöld hvort Íslandi dugir jafntefli eða þurfi sigur í lokaumferðinni um helgina til að komast í umspilið.
Athugasemdir
banner
banner