Thomas Frank þjálfari Brentford segist ekki hafa neinn áhuga á að missa leikmenn úr hópnum í janúarglugganum, þrátt fyrir ýmsa orðróma sem eru á sveimi.
Frank er ánægður með leikmannahópinn sinn og hefur kantmaðurinn Kevin Schade verið orðaður við þýska stórveldið Borussia Dortmund.
„Kevin líður vel hérna og við erum ánægðir með hann. Við höfum ekki áhuga á því að selja neinn leikmann í janúarglugganum," sagði Frank á fréttamannafundi í gær, en Brentford tekur á móti Englandsmeisturum Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
„Við búumst ekki við að kaupa inn nýja leikmenn eða selja okkar leikmenn. Við erum ánægðir með hópinn okkar."
Frank var þá spurður út í Christian Norgaard sem verður samningslaus eftir tímabilið, en danski miðjumaðurinn er fastamaður í byrjunarliði Brentford.
„Við erum í viðræðum við Christian. Við erum ánægðir með hann og honum líður vel. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hann verði hérna áfram."
Brentford seldi Ivan Toney til Al-Ahli síðasta sumar og keypti Igor Thiago til að fylla í skarðið, en sá hefur verið meira eða minna meiddur allt tímabilið.
Athugasemdir