Omar Marmoush var á sínum stað í byrjunarliði Eintracht Frankfurt sem tók á móti Freiburg í þýska boltanum í dag.
Marmoush er mögulega á leið til Manchester City í janúarglugganum en sú umræða hefur engin áhrif á hann.
Frankfurt lenti undir í dag en Robin Koch, fyrrum leikmaður Leeds United, jafnaði fyrir leikhlé eftir undirbúning frá Marmoush.
Marmoush tók svo forystuna fyrir Frankfurt í síðari hálfleik áður en Hugo Ekitike tvöfaldaði hana með þriðja marki liðsins, eftir undirbúning frá Mario Götze.
Marmoush lagði svo fjórða og síðasta mark heimamanna upp fyrir Nnamdi Collins og urðu lokatölur 4-1 fyrir Frankfurt, þar sem Marmoush skein skært eins og hann hefur verið að gera allt tímabilið.
Wolfsburg skoraði þá fimm mörk í stórsigri gegn Borussia Mönchengladbach, Þar kom Lukas Nmecha inn af bekknum í síðari hálfleik og skoraði tvennu til að gulltryggja þægilegan sigur.
Að lokum fór einn toppbaráttuslagur fram í kvöld þar sem Bayer Leverkusen fékk spútnik lið Mainz í heimsókn.
Leverkusen var sterkari aðilinn og verðskuldaði 1-0 sigur. Alex Grimaldo skoraði eina mark leiksins í upphafi síðari hálfleiks. Bo Henriksen stjóri Mainz fékk að líta rautt spjald í uppbótartíma.
Þetta var ellefti sigur Leverkusen í röð í öllum keppnum og er liðið aðeins einu stigi á eftir toppliði FC Bayern í titilbaráttu þýsku deildarinnar, en Bayern á leik til góða.
Frankfurt er í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Leverkusen. Mainz kemur svo í fimmta sæti.
Bayer 1 - 0 Mainz
1-0 Alex Grimaldo ('48 )
Eintracht Frankfurt 4 - 1 Freiburg
0-1 Ritsu Doan ('37 )
1-1 Robin Koch ('43 )
2-1 Omar Marmoush ('65 )
3-1 Hugo Ekitike ('71 )
4-1 Nnamdi Collins ('81 )
Wolfsburg 5 - 1 Borussia M.
1-0 Jonas Wind ('3 , víti)
2-0 Joakim Maehle ('60 )
3-0 Maximilian Arnold ('75 )
4-0 Lukas Nmecha ('84 )
5-0 Lukas Nmecha ('87 )
5-1 Shio Fukuda ('89 )
Athugasemdir