Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í sænska meistaraliðinu Rosengård fékk óvæntan 4-0 skell gegn Hammarby í 3. umferð deildarinnar í kvöld.
Rosengård lék sér að andstæðingum sínum í deildarkeppninni á síðustu leiktíð og vann 25 af 26 leikjum sínum er það varð meistari í 14. sinn.
Hammarby er greinilega þeirra „kryptónít“ en það var einmitt eina liðið sem tókst að leggja Rosengård að velli á síðustu leiktíð.
Í kvöld var sama saga nema nokkuð þægilegri sigur en Hammarby vann 4-0 og skoraði öll mörk sín í fyrri hálfleiknum.
Guðrún lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård sem hefur unnið tvo leiki á tímabilinu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom inn af bekknum hjá Bayer Leverkusen sem gerði 1-1 jafntefli við Köln í þýsku deildinni.
Leverkusen gat saxað á Eintracht Frankfurt og Wolfsburg í baráttunni um Evrópusæti en missteig sig og er nú í 4. sæti, fjórum stigum frá Frankfurt þegar þrír leikir eru eftir af deildinni.
Athugasemdir