Harry Kane, fyrirliði Englendinga, var sár og svekktur eftir 2-1 tapið gegn Spánverjum í úrslitaleik Evrópumótsins í kvöld. Þetta var annað tap Englendinga í röð í úrslitum EM.
Kane skoraði þrjú mörk fyrir Englendinga á EM en var samt langt frá sínu besta.
Hann var slakasti maður vallarins í kvöld áður en honum var skipt af velli á 60. mínútu.
Fyrirliðinn ræddi við ITV eftir leikinn.
„Það er erfitt að koma því í orð hvernig tilfinningin er á þessari stundu. Erfiður leikur og við gerðum vel að koma til baka, en náðum ekki að byggja ofan á það. Það er ótrúlega erfitt að kyngja því að fá á sig mark svona seint í leiknum.“
„Við höfum verið að koma til baka allt mótið. Við erum með það í vopnabúrinu, en náðum ekki að taka næsta skref og vinna þetta.
„Þetta er tækifæri sem glataðist. Það er ekki auðvelt að komast í úrslit, þannig maður verður að grípa tækifærið þegar það kemur en aftur mistókst það. Þetta er ótrúlega sársaukafullt og verður það áfram til lengri tíma.“
Talið er að Gareth Southgate hafi stýrt sínum síðasta landsleik en Kane var spurður út í framtíð hans.
„Gareth mun núna fara og taka sér tíma í að taka ákvörðun. Við vildum vinna þetta fyrir hann,“ sagði Kane.
Athugasemdir