Saliba til Real, Costa til City, Chilwell til Man Utd, Ramsey eftirsóttur og Van Dijk fær nýjan samning
banner
   lau 14. september 2024 08:00
Fótbolti.net
Ísland gat sent fótboltalið á Ólympíuleikana en gerði ekki
Mynd: Með harðfisk og hangikjöt að heiman
Ísland hefði getað sent fótboltalið á Ólympíuleikana í London árið 1948 og skoðaði það vel. Á endanum ákvað KSÍ að mæla gegn því við Ólympíunefnd Íslands, að senda lið til keppni þar sem KSÍ taldi íslenska knattspyrnumenn ekki nógu frambærilega á þeim tíma til að keppa á stóra sviðinu á alþjóðlegum vettvangi.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýútkominni bók Þorkels Gunnars Sigurbjörnssonar íþróttafréttamanns á RÚV og sagnfræðings sem fjallar um undirbúning og þátttöku Íslendinga á Sumarólympíuleikunum í London árið 1948. Bókin heitir Með harðfisk og hangikjöt að heiman og er gefin út af Sögufélagi. Hún fæst í öllum helstu bókabúðum.

Hér fyrir neðan má lesa brot úr bókinni með leyfi höfundar.

ÓÍ hélt því lengi opnu að senda knattspyrnulið á leikana en Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ), sem stofnað var snemma árs 1947, ákvað í nóvember sama ár að taka ekki þátt þar sem sambandið taldi frammistöðu knattspyrnumanna á síðasta Íslandsmóti ekki gefa tilefni til að senda lið til keppni. KSÍ átti þó reyndar eftir að skipta um skoðun nokkrum sinnum þar til endanleg ákvörðun var tekin vorið 1948 um að senda enga fótboltamenn frá Íslandi á leikana.

Aðeins 16 þjóðir öðluðust rétt til þess að taka þátt í fótboltahluta Ólympíuleikanna árið 1948 en þó máttu fleiri senda lið til London í eins konar undankeppni um að komast inn í 16-liða úrslitin. Þetta fyrirkomulag þýddi að Ísland átti raunhæfa möguleika á að senda knattspyrnulið á leikana, sem ýtti líklega undir það að hringlið stóð svo lengi yfir, því í apríl 1948 kom fótboltamaðurinn Björgvin Schram til fundar við ÓÍ, sagði knattspyrnumenn hafa æft vel um veturinn og færði rök fyrir því að koma þyrfti íslenska landsliðinu á Ólympíuleikana. Eigi að síður treysti KSÍ sér ekki til að mæla með þátttöku Íslands og ÓÍ fór eftir því. KSÍ lagði þó til að fulltrúum sambandsins yrði boðið með á leikana til að fylgjast með og læra.

Og þó svo að íslenskt fótboltalandslið ætti ekki að spreyta sig á Ólympíuleikum bárust upplýsingar til ÓÍ frá framkvæmdanefndinni í London í apríl árið 1948 þess efnis að hún væri með Guðjón Einarsson knattspyrnudómara í sigtinu til að dæma á Ólympíuleikunum. Guðjón hefur þó ekki komist í gegnum nálaraugað að lokum, því hann dæmdi engan knattspyrnuleik á leikunum.

Athugasemdir
banner