Gylfi Þór Sigurðsson var í viðræðum við bandaríska félagið D.C. United í sumar en hann ákvað frekar að semja við danska félagið Lyngby.
Fréttir bárust af því í sumar að Gylfi væri möguleika á leið til Bandaríkjanna en fyrrum liðsfélagi hans hjá Everton, Wayne Rooney, stýrði þá liðinu.
Viðræðurnar drógust á langinn en það var greint frá því í Athletic að United ætlaði fyrst að rannsaka mál Gylfa betur áður en það tæki ákvörðun.
Gylfi var til rannsóknar hjá lögreglunni í Manchester grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi, en málið var látið niður falla í apríl og Gylfi laus allra mála.
Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, hætti ekki að hringja í Gylfa og vildi ólmur fá hann til Danmerkur og ákvað landsliðsmaðurinn að slá til.
„Það voru alveg viðræður í gangi, en ég dró þetta svolítið og vissi ekki hvað mig langaði að gera og hvert mig langaði að fara. Það endaði með því að Freysi var búinn að hringja, hringja og hringja, bjóðandi mér á æfingar og hitt og þetta, þannig mér leist best á það í lokin,“ sagði Gylfi, sem opinberaði það að hann hafi rætt við Rooney.
„Jájá, við spjölluðum alveg saman,“ sagði Gylfi enn fremur.
Gylfi spilaði sinn fyrsta A-landsleik síðan 2020 er hann kom inn á í 1-1 jafnteflinu gegn Lúxemborg í gær.
Athugasemdir