Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 14. nóvember 2020 21:45
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Ramos klúðraði tveimur vítaspyrnum í jafntefli
Kante kom Frökkum í úrslitakeppnina
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Spánn gerði jafntefli við Sviss er liðin mættust í Þjóðadeildinni í kvöld og klúðraði fyrirliðinn Sergio Ramos tvisvar sinnum af vítapunktinum.

Svisslendingar leiddu eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem Remo Freuler skoraði frábært mark á 26. mínútu. Í síðari hálfleik skallaði Ramos knettinum í handlegg andstæðings innan vítateigs en lét Yann Sommer verja spyrnuna frá sér.

Spánn sýndi mikla yfirburði eftir leikhlé en náði ekki að koma knettinum í netið enda Svisslendingar þéttir fyrir í varnarleiknum. Nico Elvedi fékk sitt annað gula spjald undir lokin og tókst tíu Svisslendingum að halda aftur að Spánverjum allt þar til á 92. mínútu þegar Gerard Moreno náði að jafna eftir flottan undirbúning frá Sergio Reguilon.

Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Spánn klúðrar tveimur vítaspyrnum í sama leik ef vítaspyrnukeppnir eru ekki taldar með.

Á sama tíma átti Þýskaland leik við Úkraínu og komust gestirnir frá Úkraínu yfir snemma leiks en Þjóðverjar sýndu mikla yfirburði og var Leroy Sane ekki lengi að jafna. Timo Werner skoraði tíu mínútum síðar og bætti öðru marki sínu við eftir leikhlé. Lokatölur sanngjarn 3-1 sigur Þjóðverja.

Þýskaland er á toppi riðilsins fyrir lokaumferðina, einu stigi fyrir ofan Spán og þremur fyrir ofan Úkraínu. Þýskaland og Spánn mætast því í úrslitaleik um toppsætið á þriðjudaginn.

Sviss 1 - 1 Spánn
1-0 Remo Freuler ('26)
1-0 Sergio Ramos, misnotað víti ('57)
1-0 Sergio Ramos, misnotað víti ('80)
1-1 Gerard Moreno ('92)
Rautt spjald: Nico Elvedi, Sviss ('79)

Þýskaland 3 - 1 Úkraína
0-1 Roman Yaremchuk ('12)
1-1 Leroy Sane ('23)
2-1 Timo Werner ('33)
3-1 Timo Werner ('64)



Frakkland hafði þá betur gegn Portúgal í toppslag í riðli 3. N'Golo Kante gerði eina mark leiksins skömmu eftir leikhlé þegar hann fylgdi skoti Adrien Rabiot eftir með marki.

Leikurinn var fjörugur og fengu bæði lið góð færi en heimsmeistarar Frakka höfðu heppnina með sér. Frakkar eru með 13 stig fyrir lokaleikinn gegn Svíum og þar með búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Portúgalir eru með 10 stig og eiga eftir leik við Króatíu.

Svíar mættu Króötum í kvöld og unnu 2-1. Þeir leiddu 2-0 eftir góðan fyrri hálfleik, agaður varnarleikur skilaði inn sigrinum að lokum. Liðin eru jöfn í neðsta sæti riðilsins með 3 stig.

Svíþjóð 2 - 1 Króatía
1-0 Dejan Kulusevski ('36)
2-0 Marcus Danielson ('45)
2-1 Marcus Danielson, sjálfsmark ('82)

Portúgal 0 - 1 Frakkland
0-1 N'Golo Kante ('54)
Athugasemdir
banner