lau 15. janúar 2022 18:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grétar Rafn aðstoðar við leitina - Jói Kalli spurður út í sögurnar
Icelandair
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grétar Rafn er með mikla þekkingu.
Grétar Rafn er með mikla þekkingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, segir að Grétar Rafn Steinsson muni aðstoða við ferlið að finna nýjan aðstoðarþjálfara fyrir landsliðið.

Grétar Rafn hefur verið ráðinn til KSÍ sem tæknilegur ráðgjafi knattspyrnusviðs. Ráðningin er tímabundin til sex mánaða og hefur Grétar Rafn strax störf. Grétar starfaði áður á bak við tjöldin hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton en steig til hliðar fyrir um mánuði síðan.

„Eins og ég sagði við ykkur síðast, þá ætlum við að klára gluggann núna og strax í næstu viku munum við halda áfram með þá vinnu. Það að Grétar hafi skrifað undir var fyrsta skrefið í ákveðnu ferli. Við munum að sjálfsögðu nota Grétar í að hjálpa okkur við þá vinnu sem er eftir þar."

Grétar kemur inn hjá KSÍ með mikla þekkingu og mun hann meðal annars starfa við það að efla greiningarvinnu hjá sambandinu, en eins og talað var um á síðasta ári - þá erum við eftir á í þessum málum.

Jói Kalli svaraði fyrir sögusagnir
Það kom fram í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag að Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, væri á blaði hjá Arnari. Landsliðsþjálfarinn sagði á dögunum að þeir sem væru þrír efstu á blaði væru allt Íslendingar sem væru í störfum.

Jóhannes Karl er sagður einn af þremur sem eru á blaði hjá Arnari.Jóhannes Karl spilaði 34 landsleiki fyrir Ísland á leikmannaferli sínum og skoraði eitt mark.

Í þættinum var velt því fyrir sér hvaða fleiri gætu verið á blaðinu umtalaða. Brynjar Björn Gunnarsson, fyrrum landsliðsmaður og núverandi þjálfari HK, var þar talinn líklegur. Ólafur Ingi Skúlason U19 landsliðsþjálfari var einnig nefndur.

Jóhannes Karl var í viðtali hjá Fótbolta.net í dag þar sem hann var spurður út í þessar sögur.

„Nei, ég er bara fókuseraður á þetta verkefni á Skaganum," sagði Jói Kalli þegar hann var spurður út í málið.

KSÍ ákvað að rifta samningi við Eið Smára Guðjohnsen undir lok síðasta árs. Hann er fyrrum aðstoðarþjálfari Arnars. Eiður Smári fékk áminningu frá KSÍ og fór í tímabundið leyfi síðasta sumar. Það var vegna þess að myndband af honum komst í dreifingu þar sem hann var ölvaður að kasta af sér vatni á Ingólfstorgi. Það kom í kjölfar umræðu um að hann hafi verið undir áhrifum áfengis í umræðuþætti um enska boltann í Sjónvarpi Símans í mars.

Eftir landsleikinn gegn Norður-Makedóníu, síðasta leik Íslands í undankeppni EM, fékk liðið sér í glas. Það var eftir þann gleðskap sem KSÍ á að hafa ákveðið að segja samningi Eiðs upp.
Jói Kalli: Gott að koma til baka eftir rasskellingu á móti Stjörnunni
Athugasemdir
banner
banner