sun 15. mars 2020 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Darlington
Gary Martin spilaði í gær: Meira að segja verið að fresta á Íslandi
Gary í leik gegn Fylki síðasta sumar.
Gary í leik gegn Fylki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Darlington í gær.
Frá Darlington í gær.
Mynd: Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Góður fjöldi áhorfenda mætti á leikinn. Áhorfendur voru staðsettir á öllum fjórum hliðum vallarins.
Góður fjöldi áhorfenda mætti á leikinn. Áhorfendur voru staðsettir á öllum fjórum hliðum vallarins.
Mynd: Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gary Martin kom inn á sem varamaður þegar Darlington tapaði 2-4 á heimavelli gegn Farsley Celtic í sjöttu efstu deild Englands í gær, National League North.

Gary, sem er í láni hjá Darlington frá ÍBV, fannst það ekki sniðug ákvörðun að láta leikinn fara fram út af kórónuveirunni. Leikir í ensku úrvalsdeildinni, Championship-deildinni og í öðrum deildum víðs vegar um heiminn hefur verið frestað út af veirunni, en leikið var í fimmtu og sjöttu efstu deild Englands í gær.

„Ég var ekki sammála (ákvörðuninni að spila). Mér finnst þetta hættulegt, en þetta er bara eins og það er," sagði Gary við Fótbolta.net eftir leikinn í gær.

„Þetta var skrýtinn leikur, það var skrýtið andrúmsloft. Það var mikið af fólki hérna, en það var enginn hávaði. Það var skrítið og þetta var skrítið ákvörðun. Þetta er eina deildin sem er að spila og það er meira að segja verið að fresta á Íslandi."

Búið er að fresta Lengjubikarnum á Íslandi. „Það er klikkun og ÍBV á möguleika," sagði Gary og brosti. „Ég held að þeir séu ekki ánægðir með frestunina."

Ég þarf að æfa á hverjum degi
Gary, sem var markakóngur Pepsi Max-deildarinnar í fyrra, hefur verið í láni hjá Darlington frá því í janúar og hefur hann komið við sögu í sex leikjum, en aðeins byrjað einn þeirra.

„Þrír mánuðirnir sem liðu eftir að tímabilið á Íslandi kláraðist, ég get aldrei gert það aftur. Ég þarf að æfa oftar en tvisvar í viku," segir Gary, en meiðsli hafa einnig sett strik í reikninginn hjá honum.

„Þetta hefur verið góð reynsla en ég hef ekki gert það sem mig langaði að gera. Ég mun gera þetta aftur á næsta ári, en ég þarf að taka betri ákvarðanir. Í þrjá mánuði þá ertu að hlaupa í ræktinni og þú ert ekki í formi. Ég var ekki í formi og ég er að komast í gott líkamlegt stand núna."

„Ég hef verið að spila frá því í janúar, en ég átti við örlítil kálfameiðsli. Ég hef lært af þessu."

Það hefur verið erfitt fyrir Gary að komast í liðið hjá Darlington þar sem samherji hans, Adam Campbell, hefur verið að skora mikið. „Sóknarmaðurinn er að skora í hverjum leik og þú getur ekki skipt honum út þegar hann er að gera það."

„Hann hefur spilað fyrir Newcastle og fleira. Ég veit mitt hlutverk. Ef hann myndi spila með tvo frammi þá myndi ég spila, en þetta er liðið úr mínum heimabæ og er það er ekkert betra en að sitja á bekknum þegar við erum að vinna."

Gary segir að heilt yfir hafi þetta verið skemmtileg reynsla. „Ég hef notið þess. Ég hefði getað skorað í endann á leiknum í dag, en ég vildi að Cam (Adam Campbell) myndi skora. Hann fær bónus fyrir að skora, ekki ég," sagði hann léttur. „Ég hefði auðvitað getað skorað, en það er frábær tilfinning að spila fyrir félagið úr heimabæ mínum."

Hann segir að núna sé verkefni framundan með ÍBV, en ef hann ætli að spila aftur á Englandi á næsta ári þá verði hann að gera það hjá liði sem er 'full-time'. „Við æfum bara tvisvar í viku og ég þarf að æfa á hverjum degi."


Athugasemdir
banner