Danska liðið Bröndby tapaði mikilvægum stigum í titilbaráttunni í meistarariðli úrvalsdeildarinnar í dag er liðið laut í lægra haldi fyrir Koge, 3-1.
Ingibjörg Sigurðardóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir voru báðar í byrjunarliði Bröndby í leiknum í dag.
Bröndby þurfti sigur til að halda í við efstu lið deildarinnar en tap þýðir að liðið verður að öllum líkindum tíu stigum frá toppnum eftir umferðina.
Liðið situr nú í 3. sæti með 27 stig þegar níu umferðir eru eftir.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir byrjaði hjá RB Leipzig sem gerði 1-1 jafntefli við Jena í þýsku úrvalsdeildinni. Landsliðskonan fór af velli þegar rúmur hálftími var eftir en Leipzig er í 7. sæti deildarinnar með 26 stig.
Lára Kristín Pedersen var þá eins og alltaf í byrjunarliði Club Brugge sem gerði 2-2 jafntefli við Westerlo í belgísku deildinni. Brugge er í 4. sæti með 29 stig.
Athugasemdir