Magnús Haukur Harðarson, stuðningsmaður FH, var gagnrýninn á félagið sitt í Innkastinu þar sem 2. umferð Bestu deildarinnar var gerð upp. FH er án stiga eftir tvo leiki, liðið tapaði 1-0 á Ísafirði á sunnudag þar sem eina mark leiksins kom í fyrri hálfleik.
Eitt af því sem Magnús gagnrýnir er ákvörðunin að byrja ekki með nýja miðvörðinn Ahmad Faqa í leiknum á sunnudag. Faqa er lánsmaður frá AIK í Sviþjóð og kom inn á sem varamaður í hálfleik. Í hjarta varnarinnar í fyrstu tveimur leikjunum hafa þeir Böðvar Böðvarsson og Jóhann Ægir Arnarsson verið, en þeir eru í grunninn bakverðir.
Eitt af því sem Magnús gagnrýnir er ákvörðunin að byrja ekki með nýja miðvörðinn Ahmad Faqa í leiknum á sunnudag. Faqa er lánsmaður frá AIK í Sviþjóð og kom inn á sem varamaður í hálfleik. Í hjarta varnarinnar í fyrstu tveimur leikjunum hafa þeir Böðvar Böðvarsson og Jóhann Ægir Arnarsson verið, en þeir eru í grunninn bakverðir.
Lestu um leikinn: Vestri 1 - 0 FH
Af hverju byrjar hann ekki leikinn?
„FH fær miðvörð korter fyrir mót, vöntun á miðverði. Mér er drullusama þótt hann sé ekki í besta leikformi lífsins eða hvað það er, settu hann bara í liðið! Af hverju ertu að nota Jóhann Ægi og Bödda í miðverði þegar þú ert með flottan spilara sem er búinn að sanna sig í deildinni með góðu tímabili með HK. Af hverju byrjar hann ekki leikinn á móti Vestra?" sagði Magnús. Böðvar hefur ekki litið vel út í byrjun móts og hefur átt sök í tveimur mörkum í fyrstu tveimur leikjunum.
Magnús furðaði sig á því að Gils Gíslason, sem hafði spilað vel á undirbúningstímabilinu, hefði ekkert spilað í fyrstu tveimur leikjunum og hvers vegna Björn Daníel Sverrisson væri ekki í byrjunarliði FH.
„Kemst Björn Daníel ekki í byrjunarlið FH þessa dagana? Samkvæmt mínum heimildum er hann ekkert rosalega tæpur. Hann getur spilað 60-70 mínútur. Það er svo mikilvægt að byrja mótið vel og Heimir veit það alveg sjálfur."
Slepptu því bara að svara
Magnús tjáði sig þá um umræðuna fyrir leikinn en veðurspáin fyrir leik var slæm og rætt var um að færa leikinn.
„Ég skil alveg sjónarmið FH að leiktímanum sé ekki bara breytt, þegar þú spilar á mánudegi þá er æfingavikan eftir því. Davíð (Þór Viðarsson) hefði mátt sleppa því að tala um eitthvað herrakvöld. Þessi umræða sem var búin til í kringum leikinn, slepptu því bara að svara og segðu að leikurinn verði spilaður á sunnudegi þegar hann er settur á. Ef hann verður svo ekki spilaður þá bara verður hann ekki spilaður. Þú þarft ekkert að svara fyrir það neitt sérstaklega."
„Menn mæta bara huglausir, baráttulausir og algjörlega ömurlegir frá A-Ö. Þegar þú mætir á Ísafjörð, sama hvernig veðrið er, mætir liðið sem Davíð Smári er að stýra. Hvað þarftu? Þú þarft bara hugrekki, þor, dugnað og að hlaupa fyrir merkið. Það var ekkert gert af þessu. Vestri hefði alveg getað unnið leikinn tvö eða þrjú núll."
„Mér finnst þetta dapurt sem miklum FH-ing. Ég veit ekki hverju ég var að vonast eftir, en allavega ekki þessari byrjun."
Hver er krafan á þjálfarana?
Það var einnig rætt um þá staðreynd að yfirmaður fótboltamála, Davíð Þór Viðarsson, stýrði leik í Lengjubikarnum gegn Þór á Akureyri þar sem Heimir þjálfari var upptekinn við annað og aðstoðarþjálfarinn var að lýsa leik í Meistaradeildinni.
„Það eru ákveðin vonbrigði að lið fari til Akureyrar með engan þjálfara af því að einn er að gera hitt og hinn var að lýsa leik. Hver er forgangsröðunin hjá félaginu og hvaða kröfur gerir þú á þá sem eru að þjálfa liðið. Það stingur að einhverju leyti," sagði Magnús.
Umræðan um leikinn er lengri og má nálgast í spilaranum hér að neðan. Umræða um leikinn hefst eftir 63 mínútur af þættinum. Næsti leikur FH er bikarleikur gegn Fram á laugardaginn.
Athugasemdir