mið 15. júní 2022 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Gerði stundum hluti á æfingum sem eru ólýsanlegir og hæfileikarnir virtust óendanlegir"
Björn Jónsson
Björn Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ólafur Ingi Guðmundsson
Björn Jónsson var árið 2007 valinn í úrvalslið Evrópumóts U17 ára landsliða. Með Birni í liðinu voru þekkt nöfn á borð við David de Gea, Mamadou Sakho, Eden Hazard, Victor Moses, Toni Kroos, Bojan Krkic, Danny Rose og Gini Wijnaldum.

Björn er 31 árs gamall Skagamaður sem fór árið 2005 til hollenska félagsins Heerenveen og var hjá félaginu þangað til hann gekk í raðir KR árið 2011.

Sjá einnig:
Björn Jónsson í úrvalsliði Evrópu (2007)

Á þremur tímabilum með KR lék hann átján deildarleiki og skipti svo yfir í Kára árið 2014 og lék einn leik. Meiðsli settu stórt strik í reikninginn hjá Birni en hann var til umræðu í viðtali Jóhanns Skúla Jónssonar við Baldur Sigurðsson í hlaðvarpsþættinum Svona var sumarið.

Baldur ræddi við Jóa í þættinum sem fjallaði um sumarið 2012.

„Það hafa allir sterka skoðun á Birni Jónssyni og bara jákvæða. Ég vissi ekkert hver þetta var þegar hann kom í KR. Hann kemur bara inn í hópinn og svo byrjar maður að æfa með honum. Það er oft talað um að einhver taki yfir æfingar, það er sennilega aldrei satt en með Björn var þetta satt. Hann gerði stundum hluti á æfingum sem eru ólýsanlegir og hæfileikarnir virtust óendanlegir. Hann gat skotið með hægri og vinstri, var með hraðabreytingar og var náttúrulega vaxinn eins og grískur guð. Hann hafði allt og ég held að áhorfendur hafi glaðst mikið yfir því þegar hann var á bekknum af því þá var hann að gera ægileg trix þegar hann hitaði upp í hálfleik, trix sem enginn hafði séð. Hann var óheppinn með meiðsli greyið, hefði getað náð ótrúlega langt," sagði Baldur.

„Það er eitt augnablik sem maður man mjög vel eftir, gott ef það var ekki árið 2011 gegn IF Fuglafirði í 1. umferð Evrópukeppninnar. Við unnum útileikinn 3-1 og á heimavelli stilltum við upp breyttu liði. Þá byrjaði Björn og mig minnir, ég vona að það sé rétt hjá mér, að við höfum tekið miðju í byrjun leiks, Björn fékk boltann og var næstum búinn að skora svona sex sekúndum síðar eftir að hann lék á nánast allt liðið. Hann tók kannski einn þríhyrning og skaut svo rétt framhjá. Maður hugsaði bara; „hvað var að gerast?" Það er algjör synd fyrir íslenskan fótbolta [meiðslin], það eru stór orð að segja það, en hæfileikarnir voru bara magnaðir. Það var ótrúlegt að sjá hann spila," sagði Baldur.

Viðtalið við Baldur má nálgast hér að neðan. Þar má einnig nálgast viðtal við Jón Daða Böðvarsson og Alexander Scholz.


Athugasemdir
banner
banner