Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   lau 15. júní 2024 17:58
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Spánn fór létt með Króatíu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Spánn 3 - 0 Króatía
1-0 Alvaro Morata ('29)
2-0 Fabian Ruiz ('32)
3-0 Dani Carvajal ('45+2)

Spánn byrjar Evrópumótið af krafti og vann afar góðan sigur á Króatíu í fyrstu umferð.

Leikurinn var í miklu jafnvægi fyrsta hálftímann, eða allt þar til Álvaro Morata slapp í gegn og skoraði. Varnarmenn Króatíu sofnuðu á verðinum og nýtti Morata góða stungusendingu frá Fabián Ruiz til að komast í gegn.

Króatar fengu marktækifæri beint í kjölfarið en fengu svo mark í andlitið eftir laglegt einstaklingsframtak Fabián Ruiz, sem lék á tvo varnarmenn við vítateigslínuna áður en hann lét vaða með góðu skoti.

Leikmenn Króatíu blésu til sóknar og fengu góð færi en tókst ekki að nýta þau. Unai Simon varði vel og þá gerðu varnarmenn Spánverja vel að henda sér fyrir marktilraunir Króata.

Næsta mark leiksins leit dagsins ljós fyrir leikhlé eftir mikinn sóknarþunga Króatíu, en markið kom þvert gegn gangi leiksins þegar Dani Carvajal skoraði eftir fyrirgjöf frá hinum 16 ára gamla Lamine Yamal í kjölfar hornspyrnu.

Staðan var því 3-0 í hálfleik þrátt fyrir að Spánverjar hafi ekki sýnt sérlega mikla yfirburði. Þeir nýttu færin sín á meðan Króatar klúðruðu frábærum færum.

Síðari hálfleikurinn hófst með látum þar sem bæði lið fengu góð færi en róaðist niður í kjölfarið.

Króatar héldu að þeir hefðu minnkað muninn á lokakaflanum þegar mikið dómarabíó fór af stað. Leikmaður Króatíu var þar kominn framhjá Unai Simon og stóð einn meter frá opnu marki með boltann í löppunum þegar Rodri, miðjumaður Manchester City, braut á honum.

Michael Oliver dómari ákvað að dæma vítaspyrnu og gult spjald, þó að Rodri hafi augljóslega verið að ræna upplögðu marktækifæri af Króatanum sem hefði þurft kraftaverk til að klúðra færinu sem hann var kominn í.

Bruno Petkovic steig á vítapunktinn en Unai Simon varði frá honum. Boltinn barst út í teiginn og endaði aftur hjá Petkovic sem setti hann í netið, en Oliver stöðvaði leikinn og dæmdi sóknarbrot.

Það var mikill ruglingur á vellinum þessar mínútur en niðurstaðan var sú að leikmenn Króatíu voru komnir inn í vítateiginn alltof snemma þegar vítaspyrnan var tekin. Mögulegt er að Unai Simon hafi verið kominn með fæturnar af marklínunni, en það vítaspyrnan var ekki endurtekin.

Fleira gerðist ekki í þessari viðureign og niðurstaðan 3-0 sigur Spánverja í fyrsta leik dauðariðilsins.

Ítalía spilar við Albaníu í lokaleik dagsins.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner