Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   lau 15. júní 2024 14:56
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Sviss hafði betur gegn Ungverjalandi
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ungverjaland 1 - 3 Sviss
0-1 Kwadwo Duah ('12)
0-2 Michel Aebischer ('45)
1-2 Barnabas Varga ('66)
1-3 Breel Embolo ('93)

Það fór skemmtileg viðureign fram þegar Ungverjaland og Sviss mættust í fyrstu umferð Evrópumótsins í Þýskalandi.

Svisslendingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og nýttu færin sín vel. Þeir tóku forystuna strax á tólftu mínútu, þegar Kwadwo Duah stakk sér innfyrir vörn Ungverja eftir frábæra stungusendingu frá Michel Aebischer.

Ruben Vargas klúðraði dauðafæri fyrir Sviss skömmu síðar en liðsfélögum hans tókst að tvöfalda forystuna fyrir leikhlé, þegar Aebischer skoraði með hnitmiðuðu skoti utan vítateigs.

Eftir um 60 mínútna leik áttu Ungverjar góðan kafla þar sem Barnabas Varga fékk tvö góð færi áður en hann setti boltann loks í netið. Varga gerði vel að stinga sér framfyrir Aebischer til að skalla laglega fyrirgjöf frá Dominik Szoboszlai í netið.

Svisslendingar fengu færi í síðari hálfleik en Péter Gulácsi gerði vel að verja þegar þess þurfti til að halda Ungverjum inni í leiknum.

Honum tókst þó ekki að verja frá Breel Embolo, sem innsiglaði sigur Svisslendinga með laglegri afgreiðslu í uppbótartíma eftir slakan varnarleik Willi Orban.

Lokatölur 1-3 fyrir Sviss, sem tekur sér sæti við hlið Þjóðverja á toppi A-riðils. Ungverjar deila botnsætinu með Skotlandi.


Athugasemdir
banner
banner