Palace opið fyrir því að selja enska tvíeykið - Real Madrid vill að Man Utd nýti endurkaupsrétt sinn á Alvaro - Vardy orðaður við Leeds
   þri 15. ágúst 2023 15:32
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Staðfestir tvö tilboð í Loga
Logi er mjög öflugur leikmaður.
Logi er mjög öflugur leikmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Vatnhamar ánægður með stoðsendingu frá Loga.
Gunnar Vatnhamar ánægður með stoðsendingu frá Loga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Norski miðillinn nettavisen fjallar um það í dag að norska félagið Strömsgodset hafi gert tilboð í Loga Tómasson hjá Víkingi. Strömsgodset hefur selt tvo leikmenn á síðustu dögum og fram kemur á norska miðlinum að félagið hafi fengið fína upphæð fyrir.

„Þetta er staða sem við höfum sjaldan verið í, getum farið á markaðinn án þess að spyrja hvað sé í boði og hvað við getum fengið," sagði Jostein Flo sem er yfirmaður fótboltamála hjá Strömsgodset.

Félagið er í leit að styrkingu og hefur boðið í vinstri bakvörð Sandnes Ulf. Samkomulag er ekki í höfn og félagið hefur einnig boðið í Loga Tómasson.

Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason sem er yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi. Hann staðfesti að norska félagið hefði gert tilboð.

„Liðin eru bara að tala saman, samtal sem fer fram og til baka. Þeir hafa boðið í hann," sagði Kári.

Er líklegt að Logi fari fyrir lok gluggans í Skandinavíu sem lokar um mánaðamótin?

„Við verðum bara að sjá til, það er ómögulegt að segja til um það núna. Það þurfa allir að ná saman, þetta er bara eitthvað samtal sem mun halda áfram."

Kári staðfesti að annað félag hefði einnig boðið í leikmanninn og sagði að það samtal væri einnig áfram í gangi.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hafa dönsku félögin OB og Silkeborg áhuga á Loga sem og sænska félagið Halmstad. Samkvæmt nettavisen hafa önnur norsk félög einnig áhuga.

Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Loga, staðfesti við Fótbolta.net að Víkingur væri búinn að gefa sér og Loga heimild til að ræða við erlent félag. Hann sagði einnig að málin ættu að skýrast á næstunni.

Út frá því má ætla að samtal Víkings við eitt af þessum félögum sé vel á veg komið.

Framundan hjá Víkingi eru mikilvægir leikir í Bestu deildinni en fyrst er undanúrslitaleikur gegn KR í Mjólkurbikarnum sem fram fer á morgun.

Logi er 22 ára vinstri bakvörður sem hefur skorað tvö mörk og lagt upp sex í deild og bikar í sumar. Hann lagði upp tvö mörk í 6-1 sigri Víkings gegn HK á sunnudag.

Á síðasta tímabili skoraði hann sex mörk og lagði upp fimm í Bestu deildinni. Hann á að baki tvo A-landsleiki.

Sjá einnig:
Svarar fyrir fréttir um Loga - „Þetta eru skrítnar upplýsingar" (29. júní)
Athugasemdir
banner