banner
   fim 15. september 2022 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spila „allt öðruvísi" en í fyrra - „Ógeðslega skemmtilegur fótbolti"
Markvörðurinn Ingvar Jónsson
Markvörðurinn Ingvar Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir landsleik í júní
Eftir landsleik í júní
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarlína Víkings hefur spilað ofar á vellinum heldur en liðið gerði á síðasta tímabili. Breyting var á varnarlínu liðsins eftir tímabilið þegar þeir Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen lögðu skóna á hilluna og Víkingur sótti þá Kyle McLagan og Oliver Ekroth í þeirra stað.

Víkingur hefur skorað mun fleiri mörk en í fyrra, 56 mörk skoruð í 21 leik miðað við 38 mörk í 22 leikjum í fyrra. Á sama tíma fengið á sig mun fleiri mörk, í fyrra fékk liðið á sig 21 mark í deildinni en hefur þegar fengið á sig 30 í ár.

Markvörður liðsins, Ingvar Jónsson, var spurður hvort það væri öðruvísi að spila leiki í ár en í fyrra.

„Við erum í raun að spila allt öðruvísi fótbolta en í fyrra. Við erum að spila miklu hærra með línuna sem er eins og Arnar vill spila fótbolta. Í fyrra, kannski út af hraða leikmanna sem voru í varnarlínunni, gátum við þetta ekki - þá hefðu bara liðið stungið boltanum inn fyrir og keyrt á okkur. Ómeðvitað, eða meðvitað kannski hjá Kára og Sölva, þá spiluðum við aftar með línuna og vorum ekki að opna þessi svæði sem við erum svolítið að gera núna."

„Þess á móti er ég líka að spila framar, er að 'sweep-a' mun meira eins og þarf í þessu kerfi. Maður þarf að vera klár fyrir sendingarnar inn fyrir svo við getum mögulega staðið svona hátt og pressað liðin niður eins og við gerum oft. Þetta er allt öðruvísi fótbolti og meira krefjandi fyrir okkur í varnarlínunni að spila svona. En þetta er ógeðslega skemmtilegur fótbolti og ég held það sé mjög gaman að horfa á hvernig við spilum."


„Kannski að maður ætti að hætta þessu bara"
Ingvar hefur verið viðloðinn A-landsliðið á þessu ári. Hann var valinn í janúarverkefnið sem og í leiki liðsins í júní. Er hann að gera sér einhverjar væntingar um sæti í hópnum?

„Nei, í rauninni ekki - ég hef ekki pælt í því í raunninni. Ef það kemur þá bara kemur það. Það var svekkjandi síðast, ég handarbrotnaði í síðasta verkefni. Við eigum fullt af frábærum markmönnum sem eru að spila í Evrópu þannig ég er ekkert að búast við því (kallinu). Ef þeir þurfa mig þá er ég klár í það."

Ingvar meiddist líka með landsliðinu í janúar. Er einhver ólukka hjá honum þegar kemur að landsliðinu?

„Jú, reyndar þegar þú segir það. Ég tognaði þá í kálfa líka. Kannski að maður ætti að hætta þessu bara," sagði Ingvar á léttu nótunum. „Nei nei, það var bara óheppni og algjör óheppni hvernig þetta gerðist síðast í upphitun. Það var óvæntur bolti sem kom í áttina á mér, sá ekki boltann og setti hendina fyrir til að verja mig. Eins mikil óheppni og hægt var," sagði Ingvar. Landsliðshópurinn fyrir komandi leiki verður tilkynntur á morgun.

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Ingvar
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner