Trent hafnar tilboðum Liverpool - West Ham stendur fast á verðmiðanum fyrir Kudus - Xabi Alonso hættir næsta sumar - Man Utd og Liverpool fylgjast með...
banner
   fös 15. nóvember 2024 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Alls ekki að loka neinum dyrum fyrir Dagnýju
Icelandair
Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Dagný Brynjarsdóttir er aftur byrjuð að spila með enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham eftir að hafa eignast sitt annað barn.

Dagný hefur komið við sögu í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi tímabili og þar hefur hún byrjað þrjá.

Hún er hins vegar ekki í íslenska landsliðshópnum en Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður út í hana á fréttamannafundi í dag.

„Dagný er alveg inn í myndinni. Hún er að komast í sitt fyrra form. Hún er ekki valin núna. Ég er mjög ánægður með miðjumennina sem hafa verið undanfarið. Ég ákvað að breyta því ekki. Ég hélt mig við þær fjóru sem hafa verið mest inn á miðsvæðinu. Svo er það bara Dagnýjar að standa sig vel áfram og þrýsta á mig að vera valin," sagði Þorsteinn.

„Ég hef heyrt í henni nokkrum sinnum eftir að hún byrjaði að spila aftur. Við höfum átt ágætis samskipti í kringum þetta allt. Ég er ekki að loka neinum dyrum. Ef hún stendur sig vel, þá gerir hún alltaf tilkall í þennan hóp. Það er eitthvað sem framtíðin leiðir í ljós."

Dagný, sem er 33 ára, á að baki 113 landsleiki fyrir Ísland.
Athugasemdir
banner