Eftir sigurinn frækna í Helsinki eru Víkingar mættir til Aþenu í undirbúning fyrir seinni leikinn gegn Panathinaikos. sem fram fer næsta fimmtudagskvöld.
Víkingar ákváðu að fyrst fyrri leikurinn væri spilaður í Finnlandi væri hagstæðast að koma ekki heim til Íslands milli leikjanna tveggja. Liðið ferðaðist á föstudaginn yfir til Aþenu og tók sína fyrstu æfingu í Grikklandi í gær.
Víkingar ákváðu að fyrst fyrri leikurinn væri spilaður í Finnlandi væri hagstæðast að koma ekki heim til Íslands milli leikjanna tveggja. Liðið ferðaðist á föstudaginn yfir til Aþenu og tók sína fyrstu æfingu í Grikklandi í gær.
„Þetta var ákvörðun sem við ákváðum að taka fyrst að við þurfum að fljúga út til Finnlands til að spila heimaleikinn, það hefði verið fullmikið ferðalag að fara fyrst heim áður en við færum út til Grikklands. Þetta var vænlegasti kosturinn," sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings, við Fótbolta.net á dögunum.
Æfing Víkings í gær fór fram á Leoforos leikvangnum í Aþenu, gamla heimavelli Panathinaikos en liðið spilar nú á Ólympíuleikvangi borgarinnar og þar verður leikurinn á fimmtudaginn. Það er talsvert hlýrra í Aþenu en Helsinki, eins og eðlilegt er, og var um 17 gráðu hiti í grísku höfuðborginni í gær.
Andstæðingarnir spila í dag
Panathinaikos mætir Volos í grísku deildinni í dag og vonast þar til að binda endi á þriggja leikja taphrinu sína. Um er að ræða gríðarlega mikilvægan leik fyrir Panathinaikos enda er liðið í spennandi titilbaráttu í deildinni þar sem lítið má út af bregða. Sem stendur er liðið í þriðja sæti en getur með sigri komist þremur stigum frá AEK sem er á toppnum.
Panathinaikos hefur lent í erfiðri meiðslakrísu og bættist enn frekar á meiðslalista liðsins í leiknum í Finnlandi.
Hvað verða margir á leiknum á fimmtudaginn?
Eins og áður segir þá spilar Panathinaikos á Ólympíuleikvangi borgarinnar. Félagið er að byggja nýjan leikvang sem mun taka 39 þúsund áhorfendur en hann verður tilbúinn á næsta ári.
Ólympíuleikvangurinn er stærsti völlur Grikkja, tekur 75 þúsund áhorfendur og er þjóðarleikvangurinn. Hann var aðalleikvangurinn á Ólympíuleikunum 2004 og meðal fótboltaleikja sem hafa farið fram á honum er úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu 2007 þegar AC Milan vann Liverpool 2-1.
Þá hefur leikvangurinn verið notaður undir stórtónleika hjá Madonnu, U2, Red Hot Chili Peppers, Coldplay og fleiri tónlistarmönnum.
Stærðin á leikvangnum er þó ekki hentug fyrir Panathinaikos sem hefur verið með um 20 þúsund áhorfendur að meðaltali á leik hjá sér á þessu tímabili. Liðið hefur verið í brasi að undanförnu og fróðlegt að sjá hversu margir verða á leiknum gegn Víkingi.
Athugasemdir