Langþráðar mínútur hjá Jóni Degi
Brynjólfur Andersen Willumsson nýtti tækifæri sitt af bekknum í 1-0 sigri Groningen á Sittard í hollensku úrvalsdeildinni í dag, en hann gerði sigurmarkið þegar skammt var eftir af leiknum.
Sóknarmaðurinn hafði ekki skorað fyrir Groningen í tvo mánuði og var honum því eflaust létt þegar hann loksins kom boltanum í netið í dag.
Hann hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli síðustu vikur en kom inn á í dag þegar hálftími var eftir og gerði sigurmarkið tuttugu mínútum síðar.
Fjórða deildamark hans og líklega það mikilvægasta því Groningen er nú aðeins einu stigi frá Evrópusæti og með leik til góða.
Jón Dagur Þorsteinsson kom einnig inn af bekknum hjá Herthu Berlín sem vann 5-1 stórsigur á Braunschweig í þýsku B-deildinni.
Landsliðsmaðurinn spilaði síðasta stundarfjórðunginn en þetta voru hans fyrstu mínútur síðan í janúar.
Hertha er í 14. sæti með 29 stig, sex stigum fyrir ofan fallsæti.
87' BINNNNNNNNNNIII!!!!! pic.twitter.com/F3T2QoXztg
— FC Groningen (@fcgroningen) March 16, 2025
Athugasemdir