Annan leikinn í röð kom sóknarmaðurinn Stefán Ingi Sigurðarson inn af bekknum hjá Breiðabliki og skoraði. Hann innsiglaði í kvöld sigur liðsins gegn Val í stórleik 2. umferðar í Bestu deildinni.
„Tilfinningin er geggjuð. Það er virkilega gaman að vinna sterkt Valslið," sagði Stefán við Fótbolta.net eftir leikinn í kvöld.
„Tilfinningin er geggjuð. Það er virkilega gaman að vinna sterkt Valslið," sagði Stefán við Fótbolta.net eftir leikinn í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 0 - 2 Breiðablik
Það var gott fyrir Blikaliðið að svara óvæntu tapi í fyrstu umferð á þennan hátt. „Auðvitað vill maður ekki tapa og sérstaklega ekki í fyrsta leik gegn HK. Þetta er alvöru svar og við erum virkilega ánægðir með það."
„Ég var alveg sáttur með innkomu mína gegn HK en svekktur líka því ég átti stóran þátt í sjálfsmarkinu. Það voru upp og niður tilfinningar þar."
Var hann svekktur með að fá ekki kallið í byrjunarliðið í dag? „Auðvitað vill maður byrja en uppleggið er svona og það hentar kannski ekki að hafa mig á kantinum. Maður skilur þetta svo sem alveg en ég er ánægður að geta komið inn á og fá að spila. Auðvitað vill maður bara standa sig sem best. Mörk eru ekki endilega alltaf það mikilvægasta. Maður þarf að vinna fyrir þessu."
Fjölskylda Stefáns var í stúkunni en hann fagnaði af mikilli innlifun þegar hann skoraði. „Ég var að benda á kærustuna og fjölskylduna mína sem styður mig í hverjum einasta leik. Það er virkilega gaman að skora fyrir framan þau, það gefur manni auka boost að hafa þau þarna."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir