Það má segja að metnaður Kórdrengja liggur ekki einungis á vellinum, en í dag birtu þeir tilkynningu þess efnis að þeir hafa hafið styrktarsöfnun fyrir #fyrirfanney málefnið.
Tilkynningin var metnaðarfull eins og Kórdrengjum er einum lagið, þar sem liðið auglýsir stuttermaboli í dramatísku myndbandi ásamt Reyni snappara.
Myndbandið má sjá hér að ofan.
Eins og kunnugt er, þá er fjáröflunin #fyrirfanney til styrktar Fanney Eiríksdóttur, 32 ára, sem greindist með krabbamein fyrir tæpu ári síðan, þegar hún var gengin tæpar 20 vikur með son sinn og hefur hún undirgengst fjölda meðferða til þess að sigra meinið.
Fanney liggur á líknadeild Kópavogs en hjá henni er engin uppgjöf og heldur áfram að berjast fyrir lífi sínu.
Kórdrengir hafa látið sérútbúa boli sem hægt er að kaupa til styrktar Fanney og rennur allur ágóði af sölunni til Fanneyjar og fjölskyldu. Bolirnir kosta litlar 2.500 krónur og fást í öllum stærðum, hvítu og svörtu og merktir bæði Kórdrengjum og #fyrirfanney.
Í samráði við styrktaraðila Kórdrengja verður hægt að nálgast bolina á bílasölunni Diesel við Klettháls 15 og Prikið á Laugarvegi.
Athugasemdir