Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 16. júní 2022 18:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sýnir hversu mikilvæg Guðrún er fyrir besta liðið í Svíþjóð
Guðrún Arnardóttir.
Guðrún Arnardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðrún Arnardóttir hefur verið í gríðarlega stóru hlutverki hjá Rosengård, stærsta liðinu í Svíþjóð, frá því hún var fengin þangað fyrir ári síðan.

Hún lék í Djurgården í tvö ár og frammistaða hennar þar varð til þess að hún var keypt til Rosengård til að fylla í skarð Glódísar Perlu Viggósdóttur sem fór til Bayern München.

Guðrún, sem er öflugur miðvörður, hefur leyst hlutverkið gríðarlega vel og ef rýnt er í gögnin hjá WyScout þá sést það hversu mikilvæg hún er í leik liðsins.

Hún er sá leikmaður í sænsku úrvalsdeildinni sem er búin að eiga flestar sendingar af öllum eða 1088 talsins í 14 leikjum. Af þeim sendingum sem hún reynir eru 91,27 prósent heppnaðar. Guðrún er gríðarlega mikilvæg í uppbyggingu liðsins.

Ofan á það er hún að vinna flest skallaeinvígi hlutfallslega séð í deildinni; hún er að vinna 73,81 prósent skallaeinvíga sinna. Enginn leikmaður er með betri tölfræði hvað það varðar, en sú næsta á þeim lista er að vinna 67,8 prósent skallaeinvíga sinna.

Guðrún er einnig sá leikmaður Rosengård - sem er besta liðið í Svíþjóð - sem er að spila flestar mínútur í þessari öflugu deild. Hún er eini leikmaður liðsins sem kemst á topp 30 listann yfir flestar spilaðar mínútur í deildinni.

Í fyrra varð Guðrún sænskur meistari og það er stefnan aftur núna, en Rosengård er á toppnum sem stendur.

Guðrún, sem er 26 ára, vann sér inn sæti í íslenska landsliðinu á síðasta ári og verður eflaust í byrjunarliðinu á EM í sumar. Miðað við frammistöðu hennar í Svíþjóð - og með landsliðinu - er það fyllilega verðskuldað.

Þessi grein er unnin út frá gögnum frá WyScout.
Athugasemdir
banner