Ólafur Þórðarson stýrði sínum mönnum í Víkingi til sigurs gegn Þrótti í kvöld. Þetta var fyrsti heimasigur liðsins í deildinni og með sigrinum tókst Víkingum að saxa á forskot toppliðs Grindavíkur og nú er aðeins eitt stig sem skilur liðin tvö að. Fótbolti.net náði tali af Óla eftir leik og hann var hæstánægður með úrslitin og frammistöðu síns liðs.
„Ég ætla rétt að vona að við höfum náð að svæla hana í burtu núna. Það var kominn tími á það,“ svaraði Ólafur aðspurður um það hvort Víkingar hefðu náð að vinna bug á heimavallargrýlunni.
„Þetta var ekkert auðvelt. Þó að tölurnar séu svona eins og þær eru þá þurftu menn verulega að berjast fyrir því að taka þessi stig og þeir gerðu það vel í dag og héldu fókus allan tímann. Það var eitt smá móment þar sem við klikkum og gefum þeim þetta mark þeirra. En engu síður var þetta meira og minna okkar skársti heimaleikur í sumar.“
„Við vorum búnir að ræða það svolítið í vikunni og vikunni á undan að það sem var helst að hrjá okkur á heimavelli var að við ætluðum alltaf að skora svo rosalega mörg mörk að við gleymdum að verja markið okkar. Við ákváðum í dag að reyna að halda aðeins aftur af okkur og reyna að fá meiri aga í sóknarleikinn þannig að við héldum fleiri mönnum til baka þegar við vorum að sækja og létum það eftir einhverjum 4-5 mönnum en ekki 7-8 eins og kom fyrir trekk í trekk í leikjunum á undan og fengum svo á okkur hraðar sóknir þar sem andstæðingarnir áttu auðvelt með að skora úr.“
Ólafur hrósaði sínum mönnum fyrir frammistöðuna og líkti Þrótturum við sært ljón sem gæti vel bitið frá sér.
„Þeir eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna í dag og kláruðu þennan leik frábærlega. Við hefðum hugsanlega getað sett eitt, tvö mörk í viðbót á þá. Við vorum að skapa okkur töluvert af færum og það voru erfiðar aðstæður. Þróttarliðið er hörkulið. Þetta er bara sært ljón og það er oft erfitt að glíma við særð dýr. Við gerðum það ágætlega í dag og tókum þau stig sem voru í boði.“
Grindvíkingar gerðu 2-2 jafntefli við KA fyrr í kvöld og með sigrinum náðu Víkingar að færa sig nær toppsætinu. Nú er aðeins eitt stig sem skilur liðin í 1. og 2. sæti að og það er hörkuleikur framundan á föstudag þegar Víkingar fá toppliðið í heimsókn. Við spurðum Óla út í þann leik sem og meiðsli lykilmannanna Ingvars Kale og Arons Elísar Þrándarsonar.
„Það er Grindavík hér á föstudaginn. Það er ekkert flóknara en það. Það er framhaldið. Hvað gerist í þeim leik kemur bara í ljós á föstudaginn en við ætlum okkur klárlega að reyna að taka öll stigin í þeim leik," sagði Ólafur meðal annars en hægt er að horfa á allt viðtalið við hann í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir