Fabian Hürzeler þjálfari Brighton svaraði spurningum eftir jafntefli á heimavelli gegn Fulham.
Brighton leiddi 1-0 í nokkuð tíðindalitlum leik allt þar til seint í uppbótartíma, þegar Rodrigo Muniz skoraði jöfnunarmark á 97. mínútu.
„Við vorum ekki nægilega grimmir fyrir framan markið en yfir heildina litið þá er ég ánægður með frammistöðuna. Við gáfum ekki eitt einasta færi á okkur fyrstu 96 mínútur leiksins," sagði Hurzeler að leikslokum.
„Við vorum mjög þéttir og ákafir, strákarnir börðust fyrir hvorn annan og það er það sem ég vil sjá burtséð frá úrslitunum. Ef við höldum áfram að spila svona í næstu leikjum þá munum við ná árangri til langs tíma. Það er það sem skiptir mig mestu máli.
„Auðvitað er súrt að fá jöfnunarmark á sig svona seint en þetta er partur af lífinu. Við þurfum að finna leiðir til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, það er algjör óþarfi að detta í einhverja sjálfsvorkunn. Það eru röng viðbrögð. Eina leiðin er framávið."
Athugasemdir