fim 16. júlí 2020 13:05
Elvar Geir Magnússon
„Það eiga allir sína fortíð en við horfum bara fram veginn"
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.
Mynd: Baldur Smári Ólafsson
Gengið var frá samningum á Hótel Búðum á Snæfellsnesi.
Gengið var frá samningum á Hótel Búðum á Snæfellsnesi.
Mynd: Víkingur Ólafsvík
Stjórnarmenn Víkings í Ólafsvík heyrðu í mönnum í Færeyjum áður en Guðjón Þórðarson var ráðinn þjálfari liðsins. Guðjón stýrði liði NSÍ í Færeyjum í fyrra.

Fótbolti.net spurði Jóhann Pétursson, formann Víkings Ó., út í aðdraganda þess að Guðjón var ráðinn.

„Þessi staða kom upp í fyrradag og við vorum í sambandi við Guðjón. Við tókum fund með honum í gær, hittum hann á Hótel Búðum. Við vorum allir á sömu blaðsíðu með þetta, bæði við í stjórninni og hann sjálfur," segir Jóhann.

„Við töldum að hann væri góður kostur í að klára tímabilið með okkur úr því sem komið var. Þetta er maður með gríðarlega reynslu og við erum mjög sáttir með að fá hann."

„Hann veit alveg hvað til þarf til að koma liðinu aftur í gang."

Sjá einnig:
Átta ára bið Gauja Þórðar eftir tækifæri á Íslandi loks lokið

Það hefur oft gustað í kringum Guðjón og íslensk félagslið virtust ekki þora að leita til hans.

„Það eiga allir sína fortíð en við horfum bara fram veginn. Við vorum búnir að kanna hvernig honum gekk í Færeyjum. Það voru bara jákvæðir hlutir sem við fengum þaðan. Við treystum Guðjóni alveg fullkomlega til að klára þetta með okkur," segir Jóhann.

Ólsarar eru í níunda sæti Lengjudeildarinnar með sex stig að loknum fimm umferðum. Liðið fær Aftureldingu í heimsókn til sín annað kvöld en Brynjar Kristmundsson, aðstoðarþjálfari, stýrir þeim leik. Eftir leikinn tekur Guðjón svo formlega við og stýrir sínum fyrsta leik á miðvikudaginn, útileik gegn Leikni á Domusnovavellinum í Breiðholti.

„Við teljum okkur vera með gott lið og viljum klára þetta tímabil með sóma. Við verðum bara sáttir ef við verðum fyrir ofan miðja deild og við höfum alveg fulla trú á því," segir Jóhann.
Athugasemdir
banner
banner
banner