Nígeríski framherjinn Victor Osimhen er afar eftirsóttur en fær ekki að fara frá Napoli nema fyrir ákveðna upphæð, sem er talin vera rétt undir 100 milljónir evra.
Franska stórveldið Paris Saint-Germain hefur miklar mætur á Osimhen og er hann efstur á lista hjá félaginu ef því tekst að selja einhvern af framherjunum sem eru nú þegar hjá félaginu.
Goncalo Ramos og Randal Kolo Muani eru framherjar PSG í dag og er félagið reiðubúið til að hlusta á tilboð í þá báða, en mun ekki selja þá með miklum afslætti.
Ramos og Kolo Muani stóðust ekki væntingar á síðustu leiktíð þar sem hvorugur þótti skora nóg af mörkum.
Osimhen er 25 ára gamall og skoraði 17 mörk í 32 leikjum á síðustu leiktíð, eftir að hafa sett 31 mark í 39 leikjum leiktíðina þar á undan.
Athugasemdir