mán 16. september 2019 21:03
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: KR Íslandsmeistari 2019 (Staðfest)
Tryggðu sér titilinn á Hlíðarenda
Til hamingju KR!
Til hamingju KR!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi gerði sigurmarkið.
Pálmi gerði sigurmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR er sigurvegari í Pepsi Max-deildinni 2019. Þetta varð ljóst eftir sigur liðsins á Val á Hlíðarenda í kvöld. Íslandsmeistaratitillinn tryggður á heimavelli erkifjendanna.

KR heimsótti Val í kvöld og var sigur í leiknum nóg til þess að tryggja titilinn með tvo leiki eftir.

KR náði forystunni snemma þegar Pálmi Rafn Pálmason, sem hefur verið frábær í sumar, skoraði laglegt mark. „Kennie tekur innkast á Pablo sem leggur boltann til baka og Kennie neglir boltanum fyrir, yfir Eið Aron og Pálmi Rafn mætir lang graðastur inn á markteiginn og stýrir boltanum inn, Einar Karl var að reyna að verjast Pálma en átti ekki séns!" skrifaði Baldvin Már Borgarsson í beinni textalýsingu þegar KR skoraði.

Valsarar ógnuðu KR ekki mikið eftir markið. Á 87. mínútu varði Beitir í marki KR mjög vel eftir skalla Emil Lyng. Mikið meira var það ekki og góður 1-0 sigur KR staðreynd.

Þeir eru vel að titlinum komnir, besta lið sumarsins í Pepsi Max-deildinni! Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill KR síðan 2013, en þá var Rúnar Kristinsson einnig þjálfari liðsins. KR er að vinna titilinn í 27. sinn.

KR er með 46 stig eftir 20 leiki. Valur er í sjöunda sæti með 25 stig og það er mjög lítill möguleiki á því að Íslandsmeistararnir frá því í fyrra verði í Evrópukeppni á næsta tímabili.

Í hinum leiknum sem var að klárast gerðu Breiðablik og Stjarnan 1-1 jafntefli í grannaslag. Jósef Kristinn Jósefsson kom Stjörnunni yfir, en Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði í síðari hálfleik.

Breiðablik var eina liðið sem átti möguleika á því að koma í veg fyrir titil KR fyrir kvöldið í kvöld. Breiðablik er í öðru sæti með 37 stig. Stjarnan er í fjórða sæti með 29 stig.

Valur 0 - 1 KR
0-1 Pálmi Rafn Pálmason ('4 )
Lestu nánar um leikinn

Breiðablik 1 - 1 Stjarnan
0-1 Jósef Kristinn Jósefsson ('38 )
1-1 Höskuldur Gunnlaugsson ('72 )
Lestu nánar um leikinn


Athugasemdir
banner
banner
banner