„Það er mjög góð tilfinning að vera orðinn leikmaður Vestra," segir markvörðurinn Guy Smit sem skrifaði undir samning hjá Vestra núna í byrjun febrúar.
Smit er 29 ára gamall og var síðast á mála hjá KR en hann yfirgaf félagið eftir síðasta tímabil.
Smit er 29 ára gamall og var síðast á mála hjá KR en hann yfirgaf félagið eftir síðasta tímabil.
Hann kom fyrst til landsins árið 2020 og lék þá með Leikni í Lengjudeildinni við góðan orðstír áður en hann samdi við Val tveimur árum síðar. Hollendingurinn gekk í raðir ÍBV á láni frá Val sumarið 2023 og spilaði þá 18 leiki í Bestu deildinni er Eyjamenn féllu niður í Lengjudeildina. Eftir tímabilið samdi hann við KR en núna er hann mættur í Vestra.
„Þetta fær mig til að hugsa um tímann þegar ég var hjá ÍBV. Þetta er þétt samfélag og fólk hugsar vel um þig. Ef ég þarf eitthvað, þá eru þrír eða fjórir sem eru um leið mættir til að hjálpa. Auðvitað hefur margt gerst á bak við tjöldin með nokkur mismunandi félög en Vestri sýndi mér mikinn áhuga og sýndu mér að þeir voru með plan fyrir mig. Ég kunni að meta það," segir Smit við Fótbolta.net.
Mikið í gangi síðustu vikur
Smit hefur rætt við nokkur félög síðustu vikur og mánuði en á endanum var það Vestri sem varð fyrir valinu.
„Það hefur verið mikið um að vera síðustu vikur. Ég hef rætt við mismunandi félög á Íslandi, Danmörku og í Hollandi. Ég er með umboðsmann en ég tók mikinn þátt í ferlinu. Ég er ánægður með niðurstöðuna og er spenntur fyrir þessu skrefi. Ég tel að þetta geti verið mjög gott fyrir minn feril," segir Smit.
Eftir tímabilið fór hann í viðræður við KR um nýjan samning, en ekki náðist samkomulag og fór því svo að hann yfirgaf félagið þegar samningur hans rann út þann 16. nóvember.
„Ég hafði talað við KR síðan í nóvember. Við ræddum saman að tímabilinu loknu en við náðum ekki samkomulagi á þremur mánuðum. Það segir sitt þegar þú ert í viðræðum í tvo og hálfan mánuð og nærð ekki saman. Ég verð að segja að í millitíðinni hefur Vestri rætt við mig og þeir lögðu mikið á sig, þeir voru metnaðarfullir. Valið var á endanum auðvelt fyrir mig."
Smit fór meðal annars á reynslu hjá hollenska félaginu Roda JC, sem spilar í næst efstu deild, en er nú kominn aftur til Íslands og hefur samið um að leika með Vestra á komandi tímabili.
„Reynsla mín með Roda var mjög góð. Ég æfði með þeim í eina og hálfa viku í desember. Þeir voru í vandræðum með markvarðarstöðuna þá. Ég tengdi vel við markvarðarþjálfarann og félagið en við náðum ekki samkomulagi þar sem báðir aðilar yrðu sáttir. Þetta er mjög stórt félag í Hollandi með ríka sögu. En það var ekki rétta skrefið fyrir mig að fara aftur til Hollands og semja við Roda. Kannski gerist það í framtíðinni," segir hollenski markvörðurinn.
Blendnar tilfinningar
Hann átti erfitt uppdráttar með KR fyrri hluta tímabilsins en var gríðarlega öflugur í lokakaflanum. Hann segir tilfinningarnar blendnar eftir tíma sinn í Vesturbænum.
„Ég hef klárlega blendnar tilfinningar eftir tímabilið með KR. Byrjunin var erfið. Ég kom fyrst inn í hópinn og æfði með liðinu í viku til að sjá hvort ég næði að koma mér vel inn í hópinn. Það voru vandræði með húsnæði fyrir mig og ég þurfti að skipta mikið á undirbúningstímabilinu. Það var mikið í gangi til að byrja með og fyrri helmingurinn á tímabilinu var frekar slæmur," segir Smit.
„Ég myndi þar segja að ég persónulega hafi byrjað illa. Ég náði ekki mér á strik og reyndi að finna lausnir við því. Ég var að ofhugsa í staðinn fyrir að spila bara leikinn og vera ég sjálfur. Ef þú byrjar að hugsa of mikið, þá ertu alltaf eftir á og gerir mistök."
„Það var vandamálið fyrri hluta tímabilsins. Seinni hluta tímabilsins var ég rólegri og gerði það rétta, gerði það sem mér leið vel með. Ég trúi því að ég hafi bætt mig mikið síðustu tíu leikina. Ég er virkilega ánægður að ég hafi sýnt hvað ég get síðustu leikina og ég lít ánægður á það. Við byrjuðum illa og ég byrjaði illa, en við enduðum betur."
Er mjög spenntur
Smit er núna mættur til Ísafjarðar og er að koma sér fyrir í nýju samfélagi. Hann er spenntur fyrir komandi keppnistímabili með Vestra.
„Þetta er klárlega fallegur landshluti. Eins og ég sagði áðan þá fær umhverfið mig til að hugsa um ÍBV en það er aðeins öðruvísi samt. Þetta er fallegt umhverfi. Þegar ég kom í síðustu viku þá keyrðum við í snjóbyl og þurftum að passa það að bíllinn væri á milli gulu stikanna án þess að við sáum veginn. Núna er veðrið betra og þetta er magnað. Fólkið er mjög vingjarnlegt og vill hjálpa þér," segir Smit.
„Það er frábært að sjá að frá því ég og kærastan lentum í Reykjavík þangað til ég kom á Ísafjörð, þá voru Sammi, Nonni, Davíð og Vladan að hugsa vel um okkur. Þá voru alltaf að tékka á okkur og sjá hvort okkur liði ekki vel. Þau hugsa vel um okkur. Skrifstofa þjálfarateymisins er alltaf opin og það er mjög gott þegar þú kemur inn í nýtt umhverfi."
„Það er allt sem þú þarft hérna. Það hefur allt verið mjög gott. Það eina sem ég þarf er íbúð, líkamsrækt, fótboltavöllur og markvarðarþjálfari. Það er allt til staðar hérna og ég hlakka til að byrja tímabilið eftir sjö til átta vikur. Þetta verður mjög gott. Við erum marga karaktera og góða fótboltamenn. Ég tel að við séum að byggja eitthvað sterkt."
„Ég er mjög spenntur fyrir því sem koma skal með þessu liði og þjálfarateymi. Það sem ég er minna spenntur fyrir eru flugferðirnar til Reykjavíkur. Mér finnst ekki þægilegt að vera í flugvél í ókyrrð. Þetta verður örugglega svolítið sveitt en við látum þetta virka. Vonandi verður þetta frábært tímabil," sagði íslenski Hollendingurinn að lokum.
Athugasemdir