Franski sóknarmaðurinn Antoine Griezmann verður áfram hjá Atlético Madríd á næstu leiktíð en þetta fullyrðir ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano í kvöld.
Griezmann, sem er markahæsti leikmaður í sögu Atlético, hafði verið að velta vöngum yfir framtíð sinni en miðlar höfðu orðað hann við bandaríska MLS-deildarfélagið Los Angeles FC.
Einhverjir miðlar gengu svo langt að fullyrða það að þetta yrði hans síðasta tímabil í Evrópuboltanum en honum hefur greinilega snúist hugur.
Romano segir að Griezmann hafi náð munnlegu samkomulagi um að vera áfram hjá Atlético.
Nýr samningur Griezmann mun renna út árið 2027 og hefur hann samþykkt að taka á sig árlega launalækkun fram að samningslokum.
Griezmann er 34 ára gamall og gert 197 mörk í 435 leikjum sínum með Atlético sem er í góðri stöðu um að komast í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Athugasemdir