Chelsea tilbúið að losa Mudryk - Zubimendi sér eftir því að hafa hafnað Liverpool
banner
   þri 17. september 2024 21:11
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Man Utd slátraði Barnsley á Old Trafford - Hákon og Stefán áfram
Alejandro Garnacho kom að fjórum mörkum
Alejandro Garnacho kom að fjórum mörkum
Mynd: Getty Images
Marcus Rashford átti flottan leik
Marcus Rashford átti flottan leik
Mynd: Getty Images
Hákon Rafn er kominn áfram í næstu umferð
Hákon Rafn er kominn áfram í næstu umferð
Mynd: Getty Images
Stefán Teitur spilaði í ótrúlegum leik
Stefán Teitur spilaði í ótrúlegum leik
Mynd: Preston
Manchester United flaug áfram í 16-liða úrslit enska deildabikarsins með því að kjöldraga Barnsley, 7-0, á Old Trafford í kvöld. Alejandro Garnacho, Christian Eriksen og Marcus Rashford áttu stórleik í liði United.

Erik ten Hag, stjóri United, gerði átta breytingar á liðinu sem vann Southampton um helgina og leyfði leikmönnum að fá tækifærið til að sanna sig.

Marcus Rashford, sem hefur verið harðlega gagnrýndur undanfarið ár fyrir frammistöðu sína, virðist vera að finna sitt gamla form.

Hann skoraði gegn Southampton um helgina og fylgdi því vel á eftir.

Englendingurinn kom United í forystu gegn Barnsley með marki á 16. mínútu. Garnacho átti fallega sendingu frá vinstri og yfir á hægri á Rashford, sem lék inn á teiginn og setti boltann í vinstra hornið.

Á 35. mínútu tvöfaldaði Antony forystuna með marki úr vítaspyrnu. Fyrsta mark hans á tímabilinu.

Rashford launaði Garnacho greiðann, svona þannig lagað, undir lok hálfleiksins. Framherjinn keyrði inn í teiginn og vissi í raun ekkert hvað hann ætlaði að gera við boltann áður en hann missti hann til Garnacho sem skoraði.

United hélt áfram á sömu braut í þeim síðari. Garnacho gerði annað mark sitt á 49. mínútu. United vann boltann gegn liði Barnsley sem var komið hátt upp völlinn. Eriksen kom með sendinguna út á vinstri þar sem Garnacho var kominn aleinn í gegn og eftirleikurinn auðveldur.

Rashford gerði þá annað mark sitt stuttu síðar og aftur eftir stoðsendingu Garnacho. Argentínumaðurinn lagði boltann vinstra megin inn í teiginn á Rashford sem setti hann niðri vinstra megin. Frábær frammistaða hjá félögunum.

Christian Eriksen bætti við tveimur mörkum áður en flautað var til leiksloka en Bruno Fernandes, sem kom inn af bekknum, lagði upp bæði mörkin.

Frammistaða sem mun eflaust gera mikið fyrir sjálfstraustið, þó andstæðingurinn hafi ekki verið neitt sérlega sterkur. United komið áfram í 16-liða úrslit og það nokkuð örugglega.

Hákon Rafn í markinu er Brentford fór áfram

Seltirningurinn Hákon Rafn Valdimarsson byrjaði annan leik sinn með Brentford er liðið vann 3-1 sigur á Leyton Orient á Community-leikvanginum í Lundúnum.

Hann átti stjörnuframmistöðu í síðustu umferð, þar sem hann varð víti og hélt hreinu er Brentford flaug áfram.

Leikurinn í kvöld byrjaði ekki vel hjá Hákoni sem fékk á sig klaufalegt mark á 11. mínútu. Brentford var í mestu vandræðum með að hreinsa boltann úr teignum og varnarmenn ekki að elta sína menn. Fyrirgjöfin kom fyrir og fór enginn leikmaður í hana. Hákon hikaði við að fara út í boltann og endaði hann á fjær hjá Brandon Cooper sem skoraði.

Brentford var betri aðilinn eftir það og skoraði þrjú góð mörk. Fabio Carvalho skoraði draumamark á 17. mínútu með bakfallsspyrnu af stuttu færi og þá bættu þeir Mikkel Damsgaard og Christian Norgaard við tveimur mörkum.

Eddie Nketiah og Eberechi Eze skoruðu mörk Crystal Palace í 2-1 sigrinum á QPR á meðan Sheffield Wednesday vann 1-0 sigur á Blackpool.

Stoke City komst áfram eftir að hafa unnið Fleetwood Town eftir vítakeppni.

Everton er þá úr leik eftir að hafa tapað fyrir Southampton eftir vítakeppni. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma, en í vítakeppninni var Ashley Young skúrkurinn og Southampton því áfram.

Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Preston sem komst áfram eftir að hafa unnið Fulham eftir langa vítakeppni. Stefán var farinn af velli áður en vítakeppnin fór af stað, en Preston hafði þar betur, 16-15.

Úrslit og markaskorarar:

Stoke City 1 - 1 Fleetwood Town (2-1 eftir vítakeppni)
1-0 Michael Rose ('54 )
1-1 Rhys Bennett ('90 )

Blackpool 0 - 1 Sheffield Wed
0-1 DiShon Bernard ('34 )

Brentford 3 - 1 Leyton Orient
0-1 Brandon Cooper ('11 )
1-1 Fabio Carvalho ('17 )
2-1 Mikkel Damsgaard ('26 )
3-1 Christian Norgaard ('45 )
Rautt spjald: Jack Simpson, Leyton Orient ('69)

Everton 1 - 1 Southampton (5-6 eftir vítakeppni)
1-0 Abdoulaye Doucoure ('20 )
1-1 Taylor Harwood-Bellis ('32 )

Preston NE 1 - 1 Fulham (16-15 eftir vítakeppni)
1-0 Ryan Ledson ('35 )
1-1 Reiss Nelson ('61 )

QPR 1 - 2 Crystal Palace
0-1 Edward Nketiah ('16 )
1-1 Sam Field ('53 )
1-2 Eberechi Eze ('64 )

Manchester Utd 7 - 0 Barnsley
1-0 Marcus Rashford ('16 )
2-0 Antony ('35 , víti)
3-0 Alejandro Garnacho ('45 )
4-0 Alejandro Garnacho ('49 )
5-0 Marcus Rashford ('58 )
6-0 Christian Eriksen ('81 )
7-0 Christian Eriksen ('85 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner